146. löggjafarþing — 59. fundur,  25. apr. 2017.

störf þingsins.

[13:52]
Horfa

Óli Björn Kárason (S):

Frú forseti. Hér síðar í dag fjöllum við um þingsályktunartillögu frá þingflokki Pírata þar sem lagt er til að rannsökuð verði sérstaklega svokölluð fjárfestingarleið Seðlabankans. Það er ágætt. Ég var einn þeirra sem gagnrýndu fjárfestingarleiðina á sínum tíma á grundvelli þess að verið væri að brjóta jafnræðisreglu, en það er annað sem Píratar telja ástæðu til að rannsaka. Það vekur hins vegar athygli að í gær féll dómur í Héraðsdómi Reykjavíkur í máli Samherja gegn Seðlabanka Íslands. Dómurinn var óvenjuskýr, afdráttarlaus, um það að stjórnsýsla Seðlabankans hefði ekki verið með þeim hætti sem við gerum kröfu um að beitt sé hjá stofnunum og embættismönnum ríkisins. Á síðasta ári hóf stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þingsins rannsókn eða umfjöllun um stjórnsýslu gjaldeyriseftirlits Seðlabankans. Þeirri vinnu lauk ekki af ýmsum ástæðum. Ég hygg að ýmislegt hafi komið fram á undanförnum mánuðum og vikum, nú síðast í gær með afgerandi dómi héraðsdóms, og því sé ástæða fyrir eftirlitsnefnd að hefja þetta starf að nýju og kanna með hvaða hætti stjórnsýslu í Seðlabankanum, þegar kemur að gjaldeyriseftirlitinu, hefur verið háttað á undanförnum árum og hvort þær brotalamir sem birtast í þessum dómi séu með þeim hætti að Alþingi þurfi að grípa til ráðstafana.