146. löggjafarþing — 59. fundur,  25. apr. 2017.

störf þingsins.

[14:03]
Horfa

Bjarni Halldór Janusson (V):

Frú forseti. Í gær ræddum við fyrirspurn um sálfræðiþjónustu í framhaldsskólum. Ég tek fram að þörfin er ekki síður mikilvæg í háskólum landsins, sérstaklega í opinberum háskólum. Ég hyggst á næstunni leggja fram þingsályktunartillögu ásamt öðrum hv. þingmönnum um sálfræðiþjónustu í opinberum háskólum. Það mál er einstaklega mikilvægt fyrir háskólanema, ungt fólk.

Við Háskóla Íslands er hálft stöðugildi sálfræðings fyrir 12.500 nemendur. Til samanburðar miða samtök bandarískra skólasálfræðinga við að 500–700 nemendur séu á bak við hvern skólasálfræðing, en sé ætlunin að veita ekki einungis ráðgjöf heldur einnig meðferð mega ekki vera fleiri en 1.000 nemendur þar á bak við.

33% fólks telja sig ekki hafa efni á geðheilbrigðisþjónustu. Það er sérstaklega algengt hjá ungu og tekjulágu fólki.

Svo ég nefni dæmi er eðlilegur fjöldi meðferðartíma við kvíða og þunglyndi u.þ.b. 15 tímar, sem kosta um 220 þús. krónur. Til samanburðar, svo sú tala sé sett í samhengi, er það um 30% af þeirri upphæð sem LÍN lánar hverjum einstaklingi að hámarki til framfærslu í leiguhúsnæði. Það er því alveg ljóst að ómögulegt er fyrir ungt og tekjulágt fólk að framfleyta sjálfu sér og leita sér eðlilegrar aðstoðar.

Svo veltir fólk því fyrir sér hvers vegna áhuginn sé ekki til staðar hjá ungu fólki. Ég tel frekar að áhuginn sé til staðar en að ungt fólk kalli eftir að eitthvað verði gert í þessum málum. Ef við pælum í fjármögnun er einn stærsti hluti örorkubóta greiddur út vegna geðrænna veikinda. 46 þús. einstaklingar leysa út þunglyndislyf á ári hverju og eru þau að mestu niðurgreidd. Það er ekki svo að skilja að þunglyndislyf geti ekki gert gagn, en við þurfum líka að veita þjónustu á fyrstu stigum málsins. (Forseti hringir.)

Ég legg til að þessi ágæti þingheimur og hv. þingmenn hér inni taki þetta mál til umræðu á næstunni.