146. löggjafarþing — 59. fundur,  25. apr. 2017.

fullgilding fríverslunarsamnings milli EFTA-ríkjanna og Filippseyja.

263. mál
[14:21]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þessar upplýsingar. Mér finnst ástæða til að kalla þetta fram við fyrri umr. fyrst ráðherra kom ekki sérstaklega inn á það í framsöguræðu sinni, sem var vissulega stutt. Þetta er gott svo langt sem það nær. En spurningin er hvort menn láti þar við sitja. Þótt þetta standi svona af sér í tíma, að menn hafi unnið að samningagerðinni áður en núverandi valdhafar komust að kötlunum sem hafa gengið fram af heimsbyggðinni með hegðun sinni, er auðvitað eftir sú spurning hvort það sé sjálfgefið að fullgilda samninginn við þessar aðstæður eða hvort rök kunni að vera til þess að setja hann að einhverju leyti á ís eða doka við í þeim efnum, fyrst og fremst með það í huga að reyna að ná árangri og skapa aukinn þrýsting. Fram undir þetta virðist nefndur Duterte ekki hafa gert mikið með það sem alþjóðasamfélagið hefur haft út á hann að setja og sýnt heimsbyggðinni fingurinn. Það er spurning hvað þurfi þá til svo að hægt sé að reyna að skapa þrýsting á einhverja þróun í rétta átt þarna. En ég þakka hæstv. ráðherra fyrir og tel gott að það sé upplýst að menn hafi ekki gleymt mannréttindamálunum í þessari umferð og hefðbundin ákvæði séu í inngangsorðum samningsins. Sömuleiðis er ágætt að ráðherra hafi notað tækifæri til að vekja athygli á ástandinu þarna í krafti embættis síns.