146. löggjafarþing — 59. fundur,  25. apr. 2017.

fullgilding fríverslunarsamnings milli EFTA-ríkjanna og Filippseyja.

263. mál
[14:23]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er sammála hv. þingmanni þegar kemur að því að við eigum að reyna að gera hvað við getum til að pressa á þau stjórnvöld sem virða ekki mannréttindi, sem eru því miður ansi mörg víða um heiminn. Það munum við halda áfram að gera. Síðan er það, eins og hv. þingmaður velti upp, spurning hvað sé best að gera í stöðunni. Hvað varðar þau EFTA-ríki sem við erum í samfloti við þá hefur Sviss fullgilti þetta og Noregur og Liechtenstein stefna að því að gera það núna á vormánuðum. Þetta er alltaf spurningin hverjum sé verið að refsa. Þegar við gerum samninga sem þessa mun það fólk sem nýtur ábatans vera almenningur í viðkomandi löndum. Því meiri samskipti sem við eigum við þessi lönd, þeim mun líklegra, myndi ég almennt ætla, í það minnsta er það það sem Vesturlönd hafa almennt gert, í það minnsta erum við búin að vera að gera fríverslunarsamninga, ekki bara EFTA heldur sömuleiðis ESB og önnur ríki sem við berum okkur saman við, við lönd og samt ekki hvikað neitt frá þeirri kröfu að menn uppfylli það sem okkur finnst vera eðlileg mannréttindi. En það er auðvitað hætta á því ef við fullgildum ekki samninginn að við refsum þeim sem síst skyldi, sem er almenningur í þessum löndum.