146. löggjafarþing — 59. fundur,  25. apr. 2017.

fullgilding fríverslunarsamnings milli EFTA-ríkjanna og Filippseyja.

263. mál
[14:37]
Horfa

Teitur Björn Einarsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Þetta var athyglisvert svar hjá hv. þingmanni. Ég held að í þessu máli snúist það ekki um viðskiptahagsmuni Íslands, eins og þingmaðurinn fór yfir af þeim tölum sem þarna komu fram. Það er alveg rétt að við eigum ekki mikil viðskipti eða samskipti við stjórnvöld í Filippseyjum eða viðskipti við borgarana þar. Spurningin mín var engu að síður sú: Hvernig hjálpar það íbúum Filippseyja að losna við þessi vondu stjórnvöld að neita því að staðfesta þennan fríverslunarsamning EFTA-ríkjanna? Ég áttaði mig ekki alveg á svari hv. þingmanns hvað þetta varðar. Er þingmaðurinn þeirrar skoðunar að við eigum að flokka ríki heimsins eftir því hvar eru vond stjórnvöld eða góð stjórnvöld og hætta samskiptum við borgara slíkra ríkja, hætta fríverslun? (Gripið fram í.) Er fríverslun ekki eitt form samskipta milli borgaranna? (Gripið fram í.) Er það ekki tæki stórs hluta þessara 100 millj. manna sem búa á Filippseyjum til þess að styrkja borgarastétt sína og losna þannig við vond stjórnvöld?