146. löggjafarþing — 59. fundur,  25. apr. 2017.

fullgilding fríverslunarsamnings milli EFTA-ríkjanna og Filippseyja.

263. mál
[14:39]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Nú er ég mjög hlynntur fríverslun. Ég tel að fríverslun milli landa sé af hinu góða. Hún getur ýtt mjög mikið undir útvíkkun og útbreiðslu lýðræðis og mannréttinda í ákveðnum tilfellum. Það er ekki af ástæðulausu sem fríverslunarsamningar eins og sá sem er til umræðu í dag, milli EFTA-ríkjanna og Filippseyja, innihalda ákvæði á borð við í formálanum þar sem löndin árétta þá skuldbindingu sína, með leyfi forseta:

„að styðja við lýðræði, réttarreglur, mannréttindi og mannfrelsi í samræmi við skyldur sínar að þjóðarétti, meðal annars eins og fram kemur í sáttmála Sameinuðu þjóðanna og mannréttindayfirlýsingu SÞ.“

Það eru ástæður fyrir því að við setjum svona ákvæði í fríverslunarsamninga. Sú ástæða er að við verðum að tryggja að ákveðin grundvallarviðmið, ákveðin lágmarksviðmið séu til staðar áður en við förum að hygla löndum með viðskiptum okkar. Það er ekki þannig að viðskipti Íslands muni ráða för og stjórna því hvernig niðurstaðan verður í Filippseyjum. Við vitum alveg að það sem er í gangi í Filippseyjum verður algjörlega óbreytt, hvort sem við samþykkjum þennan samning eða ekki, en við höfum hérna tækifæri til þess að senda ákveðin skilaboð. Þau skilaboð eiga að vera þau að lönd sem hafa ekki uppfyllt grundvallarmannréttindi með viðunandi hætti fái ekki að stunda fríverslun við okkur fyrr en þau hafa bætt ráð sitt.

Ég hef komið til Filippseyja sjálfur og kynnst góðu fólki í því landi og veit því vel að það er margt gott í landinu og margt sem er hægt að bæta með aukinni fríverslun. En ástandið stjórnmálalega í Filippseyjum í augnablikinu er algjörlega óásættanlegt. Við sjáum það m.a. á því að í gær, 24. apríl, var send 77 blaðsíðna kæra til Alþjóðadómstólsins í Haag. Lögfræðingurinn Jude Josue Sabio sendi ákæru á hendur Rodrigo Duterte vegna morða á yfir 9.400 manns. Þetta fólk var hreinlega myrt með einum eða öðrum hætti undir valdi hans og stjórn, að hluta til í því sem hv. þm. Rósa Björk Brynjólfsdóttir rakti áðan. Þarna er um að ræða ítrekuð og alvarleg brot á mannréttindum. Við eigum ekki sem sjálfstætt ríki sem lítur á mannréttindi sem mjög mikilvægan þátt í hönnun samfélagsins að sætta okkur við það og vera þátttakendur í því að hygla stjórnvöldum sem ganga svona fram og drepa fólk á þennan hátt.

Við ættum algjörlega að taka upp þennan fríverslunarsamning að lokum, þegar Duterte er farinn frá, þegar það hafa orðið úrbætur á stjórnarfari í Filippseyjum. Við ættum jafnvel að reyna að auka viðskipti okkar við landið eins mikið og hægt er, en ekki í dag, ekki eins og er, ekki á meðan þessi maður myrðir fólk og sendir út drápsveitir, morðsveitir til þess að taka fólk af lífi fyrir engin önnur brot en þau að hafa ánetjast vímuefnum eða jafnvel fyrir það eitt að hafa verið fátækt á röngum stað á röngum tíma. Þetta á ekki að líðast. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)