146. löggjafarþing — 59. fundur,  25. apr. 2017.

fullgilding fríverslunarsamnings milli EFTA-ríkjanna og Filippseyja.

263. mál
[14:52]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Það væri í hæsta mála óeðlilegt ef þingmenn myndu ekki vekja athygli á því ástandi sem er á Filippseyjum í tengslum við þennan fríverslunarsamning. Tímasetningin er afleit. Ég var ein af mjög fáum þingmönnum sem greiddu ekki leið fyrir tvíhliða fríverslunarsamning við Kína einmitt út af því að ég vissi, alveg sama hversu fallegur textinn var, hversu góð fyrirheitin voru um að þrýsta á að mótmæla mannréttindabrotum í Kína, að það myndi ekki gerast. Mig langar í því ljósi að geta þess, út af því að því var haldið fram þegar sá fríverslunarsamningur var samþykktur að íslensk yfirvöld myndu beita sér fyrir því að mannréttindi yrðu virt í Tíbet, að mannréttindi yrðu virt gagnvart minnihlutahópum í Kína eins og Falun Gong og múslimum, að ég hef ekki orðið vör við að það hafi verið gert. Mér þætti gaman að heyra frá hæstv. utanríkisráðherra hvort utanríkisráðherra hyggst gera slíkt, hvort hann hyggst framfylgja því sem stóð í þessum tvíhliða fríverslunarsamningi við Kína.

Mig langar að segja ykkur ofurlitla sögu frá því fyrir um það bil tveimur vikum. Ég var á fundi Alþjóðaþingmannasambandsins þar sem miklar umræður urðu um mjög umdeilda ályktun sem á endanum var samþykkt, ályktun sem Rússar mögulega skrifuðu, og fjallaði um að ekki væri heimilt að hafa afskipti af innri málum þjóðríkja, eins og t.d. ábendingar um mannréttindabrot. Ég sagði við kínversku fulltrúana, sem voru að tala um að þeir hefðu orðið fyrir miklum afskiptum af sínum innri veruleika í stjórnsýslu, og minnti þau á tvö orð. Ég sagði: Ég hef tvö orð fyrir ykkur; ég hef Tíbet og ég hef Taívan. Þá brá svo við að þingmaðurinn frá Kína minnti mig á, fyrir framan alla hina, að Íslendingar hefðu gert fríverslunarsamning við Kína þar sem Íslendingar viðurkenndu eitt Kína. Ég hef aldrei viðurkennt eitt Kína og útskýrði fyrir honum að ég hefði sagt nei við þessum fríverslunarsamningi út af því að ég er meðvituð um að allir þeir fríverslunarsamningar sem kínversk yfirvöld hafa tekið sér fyrir hendur að undirrita við ýmis lönd hafa verið þverbrotnir. Þrátt fyrir að því hafi verið lofað ítrekað, m.a. þegar fulltrúar utanríkisráðuneytisins komu fyrir utanríkismálanefnd, þegar verið var að fjalla um þennan samning, að allt sem í okkar valdi stæði yrði svo sannarlega gert til að þrýsta á að mannréttindi verði virt í Kína, þá hefur ekkert verið gert síðan þessi samningur tók gildi. Mér finnst það mjög dapurlegt.

Nú eru rökin þau að við ætlum á fordæmalausum tímum í Filippseyjum að gera fríverslunarsamning. Við ætlum að upphefja, með því að gera þennan samning, það ófremdarástand sem þar ríkir. Það er bara þannig. Meira en 9.000 manneskjur hafa verið myrtar og það er ekki eingöngu núna, eftir að Duterte varð forseti, sem hann hefur staðið fyrir skipulögðum morðum á óbreyttum borgurum, það var líka í þá tíð sem hann var borgarstjóri. Þá fyrirskipaði hann meðal annars morð á blaðamönnum, pólitískum andstæðingum, þungaðri konu og ungbarni. Er það svona fólk sem við viljum rétta höndina? Þessi maður á ekki skilið, og þeir sem framfylgja hans voðastjórn, að við réttum þeim höndina í dag. Það ætti aftur á móti að vera fyrirheit frá okkur að rétta út höndina til Filippseyja þegar þær hafa losnað undan þessum morðhöfðingja.

Ég veit að þetta verður samþykkt eins og fríverslunarsamningurinn við Kína og því langar mig að skora á hæstv. utanríkisráðherra að sýna með mjög afgerandi hætti að Íslendingum misbýður það sem er að gerast á Filippseyjum. Ég myndi mjög gjarnan vilja að Alþingi léti fylgja með, í greinargerð frá utanríkismálanefnd, mjög harðorða yfirlýsingu um hvernig almennir borgarar, og sér í lagi veikt fólk eins og fíklar, eru í lífshættu og hversu margir hafa verið drepnir. Þessi morðalda er ekkert búin. Í gær kom fram að Duterte hafi sagt að hann ætlaði að vera 50 sinnum illskeyttari en íslamistar sem voru með hryðjuverkaárásir. Hann sagði orðrétt: Gefið mér edik og salt og ég borða úr þeim lifrina. Það er ekki amalegt að eiga í viðskiptum við svona fólk. Við erum ekki að gera viðskiptasamning við þjóðina. Við erum að gera viðskiptasamning við yfirvöld. Það er þannig.

Hættið að slá ryki í augu almennings hér í þingsal með því að halda því fram að við séum að bjarga þjóðinni í Filippseyjum, því góða fólki sem þar er. Horfumst í augu við veruleikann. Þetta er ekki rétti tíminn til að samþykkja viðskiptasamning við Filippseyjar. Þetta er ekki rétti tíminn. Ef þetta verður samþykkt, eins og ég geri ráð fyrir, þá skora ég á hæstv. utanríkisráðherra að beita sér fyrir því og segja á mjög berorðan hátt að stjórnarfar af þessu tagi sé ekki eitthvað sem við getum sætt okkur við og að við fordæmum aðför að sjúklingum á Filippseyjum. Ég vil jafnframt skora á hæstv. utanríkisráðherra að framfylgja tvíhliða viðskiptasamningi við Kína og fordæma aðför að minnihlutahópum þar, hvort sem það er fólk sem er að berjast fyrir lýðræði, lögfræðingar sem eru að berjast fyrir þeim sem mannréttindi hafa verið brotin á, fjölmiðlamenn, íbúar í Tíbet eða meðlimir Falun Gong. Ég myndi mjög gjarnan vilja að íslensk yfirvöld beittu sér fyrir því að upplýsa eða fordæma líffæraflutninga úr föngum í kínverskum fangelsum. Líffæri eru tekin úr lifandi föngum sem koma frá Falun Gong; þetta er ekki einhver kenning heldur hefur verið sýnt fram á þetta og þetta er mjög alvarlegt. Ég óska eftir því að það verði fyrsta verk hæstv. utanríkisráðherra, þegar hann hittir kínverska stjórnmálamenn, að láta vita af því að líffæraflutningar á lifandi föngum sé eitthvað sem við fordæmum harðlega. Það er því miður þannig að það er alveg sama hvað við segjum, það mun ekki hafa nein áhrif.

Þegar því er haldið fram að það að gera viðskiptasamning við Filippseyjar í dag muni breyta einhverju fyrir lýðræðið í því landi þá er það bara lygi.