146. löggjafarþing — 59. fundur,  25. apr. 2017.

fullgilding fríverslunarsamnings milli EFTA-ríkjanna og Filippseyja.

263. mál
[15:01]
Horfa

Teitur Björn Einarsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Þetta var áhugavert innlegg, áhugaverð ræða hjá hv. þingmanni, sérstaklega það að draga fram fríverslunarsamninginn við Kína sem var gerður fyrr á árum í tíð vinstri stjórnar VG og Samfylkingarinnar. Það var áhugavert að heyra sjónarmið hv. þingmanns til þess samnings sem snýr að einu Kína eða hvort alþjóðasamfélagið nær eitthvað utan um það miðað við að viðurkenna eingöngu stefnu Kína um eitt Kína og hvernig við högum þeim samskiptum.

Hér er ekki verið að deila um alvarleika mannréttindabrota á Filippseyjum. Hér er heldur ekki ágreiningur um að stjórnvöld undir forystu Duterte sé mjög slæm og hann sé vondur leiðtogi, illþýði ef svo má segja. Það er svo sem ekki ágreiningur, heyri ég í orðum hv. þingmanns, um ágæti fríverslunarsamninga almennt. Þeir stuðla að samtali, viðskiptum, milli ríkja, milli borgara slíkra ríkja, ekki milli stjórnvalda þótt það séu valdhafarnir sem geri slíka samninga.

Þá er spurningin. Hv. þingmaður vill samþykkja fríverslunarsamninginn eftir að íbúar Filippseyja hafa losnað við sinn vonda forseta. Varðandi hvernig nákvæmlega sé hægt að réttlæta það að segja að þetta séu viðskiptasamningar sem koma íbúum til góða þá er þetta er ekki lausnin á málum þeirra en þetta kallar maður skref. Þetta er skref ásamt því að fylgja alþjóðlegum reglum um að eiga samskipti við ríki sama hversu slæm þau eru. Það á líka við í tilviki Rússlands þar sem við höfum tilteknar viðskiptaþvinganir settar á ákveðna embættismenn og háttsetta aðila þar, ekki á almenning í Rússlandi, þvert á móti. Ég spyr hv. þingmann hvernig það kemur íbúum Filippseyja til góða að samþykkja ekki samninginn núna heldur eftir að þeir losna við stjórnvöld í Filippseyjum.