146. löggjafarþing — 59. fundur,  25. apr. 2017.

fullgilding fríverslunarsamnings milli EFTA-ríkjanna og Filippseyja.

263. mál
[15:03]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Samkvæmt þessum rökum hefðum við átt að gera fríverslunarsamning við Þýskaland í stjórnartíð Hitlers. Það hefði væntanlega komið á góðum samskiptum milli ríkjanna og hjálpað almenningi í Þýskalandi. Frábært. Eigum við að fara að undirbúa fríverslunarsamning við Norður-Kóreu kannski? Mér finnst það alveg prýðisgóð hugmynd.

Það hefur verið þannig í Rússlandi og Írak og fleiri löndum þar sem hafa verið viðskiptaþvinganir að þær bitna einmitt á almenningi en ekki á þeim sem sitja við kjötkatlana í þeim löndum, það er bara þannig.

Að reyna að halda því fram að það komi almenningi í Filippseyjum eitthvað sérstaklega til góða að gera fríverslunarsamning í dag er alveg fullkomin hræsni, með fullri virðingu, forseti. Ég myndi segja að með því að gera þennan fríverslunarsamning núna séum við að viðurkenna stjórnarfarið í Filippseyjum. Það er svo einfalt.

En ég skora á hæstv. utanríkisráðherra að byrja að undirbúa fríverslunarsamning við Norður-Kóreu því að það hlýtur að skapa rosalega góð tækifæri fyrir almenning í þar í landi.