146. löggjafarþing — 59. fundur,  25. apr. 2017.

fullgilding fríverslunarsamnings milli EFTA-ríkjanna og Filippseyja.

263. mál
[15:06]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Það að bera saman þróunarsamvinnu og viðskiptasamninga er náttúrlega alveg ótrúlega sérkennilegt. Ég ætla ekki einu sinni að svara því, það er svo út í hött.

Það sem mér finnst skipta máli er að þó svo að maður geri fríverslunarsamning og mótmæli einhverju, þá hafa mótmælin engin áhrif af því að það eru engar afleiðingar. Þegar við erum búin að gera fríverslunarsamning eru engar afleiðingar. Við munum tvinna saman hagsmuni sem þýðir að það er enn meiri ótti við að láta í sér heyra ef mannréttindi eru brotin. Það hefur sýnt sig ítrekað.

Ég man eftir því þegar Dalai Lama kom til Íslands. Þá voru mjög fáir sem vildu hitta hann út af því að kínverska sendiráðið og kínversk yfirvöld höfðu hótað því að við myndum svo sannarlega finna fyrir því, íslensk yfirvöld og þjóðin öll, ef við myndum hitta Dalai Lama, íslenskir ráðamenn, þingmenn og forseti lýðveldisins. Ég vissi að það var ekki kominn fríverslunarsamningur og þess vegna gátum við gert það sem okkur sýndist. Þeir væru á fullu að vinna að slíkum samningi og vildu hann svo mikið að þeir myndu ekki gera neitt þó ráðamenn landsins hittu friðarhöfðingjann mikla.

Maður hefur séð þá þróun út um allt að ef það eru gerðir viðskiptasamningar við ríki sem eru undir ógnarstjórn verða hagsmunir miklir og mótmælaraddir ógnarstjórnarinnar verða veikari og yfirvöld beita sér ekki. Það er staðreynd. Maður þarf ekki annað en að horfa í kringum sig og skoða fréttir síðustu áratugi til þess að „validera“ þau rök.

Ég vil ítreka það varðandi þróunarsamvinnu að hún er ekki á neinn hátt sambærileg við viðskiptasamninga. Það er fráleitt að stilla þeim hlutum saman á þennan hátt. (Forseti hringir.) Það er svipað og að stilla saman fátæku fólki á Íslandi og fólki sem sækist eftir hæli hérlendis. Þetta eru órök.