146. löggjafarþing — 59. fundur,  25. apr. 2017.

fullgilding fríverslunarsamnings milli EFTA-ríkjanna og Filippseyja.

263. mál
[15:09]
Horfa

Gunnar Hrafn Jónsson (P):

Herra forseti. Ég hef heyrt þau rök frá stjórnarþingmönnum að það komi almenningi til góða að koma á sem mestum viðskiptum við ógnarríki og að í raun væri verið að refsa íbúunum sjálfum með því að setja viðskiptaþvinganir á slíkar ógnarstjórnir. Nú á ég vini í Suður-Afríku sem yrðu ansi hissa á þessum rökum þar sem suður-afríska Apartheid-stjórnin var beinlínis felld á endanum og Ródesíu-stjórnin líka með því að ríki tóku höndum saman um að skipta ekki við slíkt fólk; og ekki morðingja eins og Duterte forseta. Að gera samninginn akkúrat þegar Duterte forseti kemst til valda er svipað og ef við hefðum valið valdatíð Pols Pot til að hefja viðskipti við Kambódíu því að það væri svo rosalega heppileg tímasetning. Nú er ég búinn að nefna nafnið Pol Pot. Sjálfur nefndi Duterte nafnið Hitler þegar hann var að taka við völdum, hann bar sjálfan sig saman við Hitler og sagði: Ef Hitler gat drepið þrjár milljónir gyðinga get ég drepið þrjár milljónir glæpamanna í mínu landi. Þetta er hugsunin á bak við ríkisstjórn hans.

Nú hafa hv. stjórnarþingmenn líka minnst á að það væri skrýtið að fara að flokka ríki í góð og slæm stjórnvöld. Hvað er skrýtið við það? Eigum við að koma eins fram við Danmörku og Norður-Kóreu? Auðvitað eigum við að flokka ríki eftir því hvernig stjórnvöld eru þar. Við flokkum ekki Sádí-Arabíu með Svíþjóð. Við gerum okkur grein fyrir að það er eðlislægur munur. Við höfum siðferðislega ábyrgð til að koma fram eins og svo sé.

Ég veit ekki hversu langt er hægt að ganga í að fordæma Duterte, mann sem hefur til dæmis sagt, þegar ástralskri konu, sem var trúboði á Filippseyjum, var raðnauðgað og hópnauðgað, að það versta væri að hann hefði ekki fengið að vera með sjálfur, forsetinn. Hann sagði, þegar dóttir hans mótmælti þeim ummælum, og sagðist sjálf hafa orðið fyrir nauðgun, að dóttir sín væri lygari og dramadrottning. Hann hefur talað fyrir því að drepa fréttamenn, sagt að þeir eigi engan rétt á að vera frjálsir undan ofsóknum eða morðum. Hann hefur persónulega viðurkennt að hafa myrt þrjá menn með eigin höndum. Hann tók mann, fór með hann upp í þyrlu og hrinti honum út úr þyrlunni. Þessu stærir hann sig af. Við erum ekki að tala um neinn umdeildan þjóðernissinna einhvers staðar sem sumir segja að sé til hægri og aðrir að sé vitleysingur. Við erum að tala um kaldrifjaðan morðingja og hans stjórn.

Mig langar að lýsa yfir stuðningi við þau hundruð milljóna manna sem búa í þessu skelfilega landi. Ég veit meðal annars um einn mann sem var giftur Íslendingi sem nýlega féll frá. Hann ætlaði að koma til Evrópu og sleppa en nú er hann fastur á Filippseyjum.

Ég segi því að lokum, herra forseti: Mabuhay ang Pilipinas. — Lengi lifi Filippseyjar.