146. löggjafarþing — 59. fundur,  25. apr. 2017.

fullgilding fríverslunarsamnings milli EFTA-ríkjanna og Filippseyja.

263. mál
[15:19]
Horfa

Hildur Sverrisdóttir (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil fá að þakka hv. þingmanni fyrir einlæga ræðu þar sem hann fór réttilega yfir að það er margt í mörgu þegar maður ræðir jafn víðtækt mál og utanríkisstefnu og hvernig maður hefur áhrif til góðs úti í heimi. Hvort er þá betra, að sitja heima og beina spjótunum eingöngu að sjálfum sér og láta aðra um sín vandamál eða að reyna að vekja ljósglætu í ríkjum sem við teljum að þurfi á smá ljósi að halda? Er það ekki þess virði?

Utanríkisstefna Íslands hefur einblínt á hið síðarnefnda, að það sé skárri kostur að reyna að vekja ljósglætu með upplýsingu, umræðu og opnum samskiptum. Þar skipta viðskipti mjög miklu máli. Það er skárra fyrir almenning í ríkjum sem eru undir ógnarstjórn, sem við öll í þessum sal erum ósammála.

Mér þykir heiðarlegt að hv. þingmaður orðaði það sem svo að hann hefði verið hugsi hefði hann verið þingmaður þeirrar ríkisstjórnar sem gerði fríverslunarsamning við Kína og hampaði honum. Þrátt fyrir að allir vissu um öll þau mýmörgu mannréttindabrot sem þar eiga sér stað þótti slíkur fríverslunarsamningur skref í rétta átt í þágu upplýsingar. Þar sem það er mat, eins og þingmaður orðaði það réttilega, langar mig aðeins að fá að spyrja: Hvað sakar að reyna? Hvað sakar það ef af fríverslunarsamningi verður, þótt það væri ekki nema við eitt fyrirtæki, og hugsanlega fengju bara tíu manns vinnu sem þeir hefðu annars ekki fengið, og þeir myndu eflast samfara því, fyllast örlítið meiri krafti, meiri upplýsingu, öðlast styrk í þeim ríkjum sem almennt þurfa meiri styrk?