146. löggjafarþing — 59. fundur,  25. apr. 2017.

fullgilding fríverslunarsamnings milli EFTA-ríkjanna og Filippseyja.

263. mál
[15:21]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg) (andsvar):

Ég þakka andsvarið. Það er ljóst að þessar umræður verða vegna þess að utanríkisstefna hefur ekki mikið verið rædd á þessu þingi. Þess vegna er hvert tækifæri kærkomið. Við notum það.

Sjálfkrafa eru viðskiptasamningar ekki nein ljósglæta. Það fer bara eftir því hverjum viðskiptasamningarnir gagnast. Sú greining er náttúrlega ákaflega erfið, sennilega oft ómöguleg. Þá er kannski betra að taka ekki sénsinn, láta það bara vera. Það getur vel verið að við getum fundið tíu manns sem fá vinnu við eitthvert fyrirtæki af því að Ísland hefur viðskiptasamninga við það, en það getur líka verið að ef við sleppum þessum viðskiptasamningum getum við bjargað lífi 100 manna því að með því gefum við fordæmi fyrir því að þjóðir heims sendi ákveðin skilaboð til Filippseyja.

Ég held að ekki hægt sé að svara þessari spurningu raunverulega með því að vigta tíu manns á móti hundrað eða tíu á móti tíu. Aðalmálið er að á meðan valdahópar, sem alltaf fylgja svona harðstjórum eins og forseta Filippseyja, hafa einhver völd í landinu getum við á engan máta tryggt að viðskiptasamningar geri gagn. En við höldum auðvitað stjórnmálasambandi. Við getum haldið uppi samræðum við svona ríki. Við getum skammað þau á alþjóðavettvangi og gert alls konar hluti. En að halda að viðskiptasamningar séu alltaf til góðs finnst mér vera útgangspunkturinn hjá þessari ríkisstjórn. Við höfum söguna sem sýnir að svo er ekki. Þá er að reyna að meta hvort þetta sé virkilega svo í tilviki Filippseyja. Ég tel það ekki vera.