146. löggjafarþing — 59. fundur,  25. apr. 2017.

fullgilding fríverslunarsamnings milli EFTA-ríkjanna og Filippseyja.

263. mál
[15:51]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Er þetta bara hefðbundin stjórnarandstaða, að vera á móti til að vera á móti? Nei, þá afstöðu átti annar stjórnmálamaður, sá er ekki hér á þingi í dag. Þetta er siðferðisleg spurning og hún er rosalega stór miðað við þau dæmi sem við höfum frá Filippseyjum.

Nú myndi ég vilja spyrja hæstv. ráðherra hvort við getum ekki náð þeim markmiðum að tryggja mannréttindi á einhvern annan hátt en með niðurfellingu tolla. Það dæmi sem ég gaf áðan um ákvæði samningsins, um að fara ætti eftir skilmálum mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna, gerir einfaldlega að verkum að um leið og aftur verða jafn gróf mannréttindabrot og við höfum dæmi um er samningurinn farinn út um gluggann. Af hverju ættum við að taka þá áhættu?

Ég spyr líka: Hvaða málflutningur er eiginlega svona ósanngjarn? Ráðherra sagði að einhverjir þingmenn væru með ósanngjarnan málflutning en væri ráðherra til í að vera nákvæmari í ásökunum sínum svo að þingmenn geti svarað fyrir sig? Af orðum ráðherra að dæma gæti hann alveg eins átt við minn málflutning; ég veit það ekki en myndi vilja fá að vita það.