146. löggjafarþing — 59. fundur,  25. apr. 2017.

fullgilding fríverslunarsamnings milli EFTA-ríkjanna og Filippseyja.

263. mál
[15:54]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Jú, stjórnarandstaðan sinnir málefnum, sinnir gæðaeftirliti. Í annan stað segir hæstv. ráðherra stjórnarandstöðuna vera á móti eins og hún eigi að vera, að hún sinni eftirliti sínu og gæðaeftirliti. Á hinn bóginn kallar hæstv. ráðherra málflutning sumra þingmanna ósanngjarnan. Það er það sem ég er að höggva eftir og biðja um frekari skýringu á, þ.e. hverjir það séu til að þeir geti varið málflutning sinn og sýnt fram á að hann sé ekki ósanngjarn. Þetta var það ónákvæm gagnrýni að ég var ekki viss um hvort hún ætti við um ræðu mína eða einhverra annarra. Þess vegna bað ég um nánari skýringar þar á.

Spurningu minni um hvort við gætum ekki náð þessum markmiðum, að tryggja mannréttindi, á einhvern annan hátt en með niðurfellingu tolla, var ekki svarað þannig að ég endurtek þá spurningu, þar sem gildi okkar breiðast jú um heiminn með slíkum samningum, tvímælalaust. En það hlýtur að vera hægt að gera aðra samninga en fríverslunarsamninga í þessum aðstæðum. Það eru tvímælalaust aðstæður þar sem fríverslunarsamningur er augljós til að ná þessum markmiðum og það eru aðstæður, eins og eru núna á Filippseyjum, þar sem ég held að við verðum að beita öðrum aðferðum.