146. löggjafarþing — 59. fundur,  25. apr. 2017.

tóbaksvarnir.

431. mál
[16:10]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Óttarr Proppé) (Bf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um tóbaksvarnir, nr. 6/2002, með síðari breytingum.

Frumvarpi þessu er ætlað að setja reglur um heimildir til sölu, markaðssetningar og neyslu á rafsígarettum og áfyllingarílátum.

Í frumvarpinu eru settar reglur um eftirlit með innflutningi, dreifingu og sölu á rafsígarettum og áfyllingarílátum til þess að tryggja viðhlítandi öryggi varanna á markaði. Frumvarpið er liður í innleiðingu á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/40/ESB um samræmingu ákvæða í lögum og stjórnvaldsfyrirmælum aðildarríkjanna varðandi framleiðslu, kynningu og sölu á tóbaki og tengdum vörum og um niðurfellingu á tilskipun 2001/37/EB. Með þeirri breytingu á lögum um tóbaksvarnir sem lögð er til með þessu frumvarpi er nú fyrst veitt heimild fyrir innflutningi, dreifingu og markaðssetningu á rafsígarettum og áfyllingarílátum hér á Íslandi.

Síðastliðin ár hefur notkun rafsígarettna aukist ört hér á landi og þykir brýnt að setja skýrar lagareglur er varða vörur sem þessar, heimildir tengdar þeim, sem og eftirlit með að öryggi þeirra sé tryggt.

Mikill árangur hefur náðst í tóbaksvörnum síðastliðin ár, sér í lagi hjá ungu fólki, og var það meginsjónarmið haft að leiðarljósi við vinnu þessa frumvarps að sporna við aukningu í tóbaksnotkun hér á landi, sérstaklega meðal ungs fólks, auk þess að koma í veg fyrir að fólk ánetjist nikótíni. Rafsígarettur eru fremur ný vara á markaði og skortir langtímarannsóknir sem varpa ljósi á möguleg áhrif notkunar þeirra. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur lagt áherslu á að ríki setji sömu reglur um rafsígarettunotkun og gilda um tóbaksreykingar þar til sýnt hefur verið fram á skaðleysi varanna og tekur frumvarp þetta að miklu leyti mið af þeirri afstöðu stofnunarinnar.

Í frumvarpinu er lagt til að settar verði reglur sem munu innleiða ákvæði 20. gr. fyrrgreindrar tilskipunar, nánar tiltekið um merkingar og umbúðir rafsígarettna og áfyllingaríláta, um bann við að auglýsa rafsígarettur og áfyllingarílát sem og um leyfilega styrkleika í nikótínvökva, stærð áfyllingaríláta og einnota tanka fyrir rafsígarettur. Þá kveður frumvarpið á um að sömu reglur muni gilda um takmarkanir á heimildum til neyslu á rafsígarettum og um sýnileika þeirra í verslunum og gilda nú um neyslu og sýnileika tóbaks.

Í aðfaraorðum fyrrnefndar tilskipunar er sérstaklega tekið fram að rafsígarettur geta rutt brautina til nikótínfíknar og að lokum til hefðbundinnar tóbaksneyslu, því að með þeim sé líkt eftir reykingum og þær gerðar eðlilegar. Í frumvarpinu er lögð áhersla á að tryggja að neysla rafsígarettna sé ekki gerð eðlileg og er farin sama leið við að ná því markmiði og farin hefur verið varðandi tóbak.

Þá var lögð áhersla á það við gerð frumvarpsins að aðgengi fullorðinna sem vilja nýta sér rafsígarettur sem skaðaminnkunarúrræði til að hætta eða draga úr tóbaksneyslu yrði tryggt, en reynt að sporna við því að ungt fólk hefji neyslu nikótíns í rafsígarettum. Er lagt til að sett verði aldurstakmark, auglýsingabann, sýnileikabann og takmarkanir á heimildum fyrir neyslu á tilteknum stöðum til að ná þessu markmiði. Því til frekari stuðnings hefur Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin bent á að meðal þeirra ríkja sem nú þegar hafa náð góðum árangri í tóbaksvörnum og þar sem hlutfall þeirra sem reykja er orðið tiltölulega lágt þá muni rafsígarettunotkun ekki verða til þess að minnka sjúkdómsbyrði vegna reykinga sem miklu nemur. Á þetta sjónarmið vel við Ísland þar sem góður árangur hefur náðst í tóbaksvörnum hér á landi og miðað við önnur vestræn ríki er hlutfall þeirra sem reykja daglega lágt á Íslandi.

Með frumvarpinu er lagt til að á eftir III. kafla laganna komi nýr kafli, IV. kafli, sem mun fjalla um rafsígarettur og er gert ráð fyrir fimm nýjum greinum í þeim kafla. Þar er lagt til að óheimilt verði að flytja inn, selja eða framleiða rafsígarettur og áfyllingarílát sem ekki uppfylla ákvæði laga þessara eða reglugerða sem eru settar með stoð í þessum lögum. Enn fremur kemur fram að við val á vöru skuli innflytjendur leitast við að flytja inn vörur sem teljast öruggar og í háum gæðaflokki. Þá er Neytendastofu gert að fara með markaðseftirlit með rafsígarettum og áfyllingarílátum í samræmi við ákvæði laganna en að öðru leyti eftir lögum um öryggi vöru og opinbera markaðsgæslu, svo og lögum um skaðsemisábyrgð, eftir því sem við getur átt. Framleiðendum og innflytjendum rafsígarettna og áfyllingaríláta sem þeir hyggjast setja á markað hér á landi er gert að tilkynna Neytendastofu sex mánuðum áður en setning á markaði er fyrirhuguð og er ráðherra veitt heimild til að setja reglugerð um nánari útfærslu á tilkynningum til Neytendastofu. Neytendastofu er einnig veitt heimild til að taka gjald fyrir móttöku tilkynninga og er Neytendastofu ætlað að birta á heimasíðu sinni upplýsingar um þá aðila sem uppfyllt hafa skilyrði tilkynningarinnar. Einnig eru sett ákvæði sem eiga að tryggja að framleiðendur, innflytjendur og dreifingaraðilar grípi tafarlaust til ráðstafana ef ástæða er til að ætla að rafsígarettur og áfyllingarílát sem eru í vörslu þeirra séu ekki örugg eða ekki í háum gæðaflokki eða að öðru leyti ekki í samræmi við lög.

Í síðasta ákvæði IV. kafla er lagt til að óheimilt verði að flytja inn, framleiða eða selja áfyllingarílát sem innihalda tiltekin aukefni, nánar tiltekið vítamín eða önnur efni sem skapa þá hugmynd að varan hafi í för með sér heilsufarslegan ávinning, koffín, tárín eða önnur aukefni og örvandi efni sem eru tengd orku og lífsþrótti, efni sem lita losunina, efni sem auðvelda innöndun eða upptöku nikótíns og efni sem hafa krabbameinsvaldandi, stökkbreytandi eða æxlunarskaðandi eiginleika á því formi sem þeirra er neytt.

Virðulegi forseti. Ég hef nú gert grein fyrir meginatriðum frumvarpsins en þær breytingar sem hér eru lagðar til eru lýðheilsumál sem varða almenning allan. Meginmarkmiðið er að vernda ungt fólk og koma í veg fyrir nýgengi reykinga meðal þess hóps en einnig að sporna gegn því að ungmenni ánetjist nikótíni í rafsígarettum. Rannsóknir benda til þess að hátt hlutfall ungmenna hér á landi hafi notað rafsígarettur með nikótíni og aukning í neyslu þessa hóps sé hröð. Stærstur hluti ungmenna hefur aldrei reykt þegar þau nota fyrst rafsígarettur. Alþjóðaheilbrigðisstofnunin hefur lagt sérstaka áherslu á neikvæð áhrif nikótíns á þroska heila ungs fólks sem og áhrif þess á þroska fósturs. Einnig leggur stofnunin áherslu á neikvæð áhrif nikótíns á hjarta- og æðakerfið, sem og að þrátt fyrir að nikótín sé ekki krabbameinsvaldandi efni í eðli sínu þá geti það ýtt undir myndun krabbameins á annan hátt. Frumvarpinu er ætlað að stuðla að áframhaldandi samdrætti í neyslu tóbaks en einnig að koma í veg fyrir að ungt fólk ánetjist nikótíni í rafsígarettum.

Því leyfi ég mér að leggja til að frumvarpinu verði að lokinni 1. umr. vísað til velferðarnefndar og til 2. umr. og hlakka til umræðunnar hér í dag.