146. löggjafarþing — 59. fundur,  25. apr. 2017.

tóbaksvarnir.

431. mál
[16:22]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Óttarr Proppé) (Bf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka andsvarið. Hér er ekki verið að banna rafsígarettur eða nikótínáfyllingarvökva. Þvert á móti er verið að leyfa þá, en þeir hafa ekki verið leyfilegir samkvæmt íslenskum lögum. Hér er ekki verið að banna fullorðnu fólki að neyta vörunnar, það er einungis verið að setja (Gripið fram í.) um hana reglur, það er verið að setja reglur um öryggi, merkingar o.s.frv.

Hér er kannski fyrst og fremst verið að reyna að sporna við aðgangi ungmenna og barna að vörunni, en eins og kom fram í ræðu minni þá hefur Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin bent á það að nikótín sé skaðlegt og geti verið skaðlegt fyrir börn auk þess að auka mögulega ánetjun nikótíns sem eins og sagan kennir okkur getur leitt til ánetjunar og notkunar tóbaks.

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin, Krabbameinsfélag Íslands og Krabbameinsfélag Reykjavíkur (Forseti hringir.) hafa mælt með því að frumvarp um þessar vörur falli undir tóbaksvarnir. Í sumar taka í gildi í Noregi lög, (Forseti hringir.) sem eru innleiðing Evróputilskipunar, (Forseti hringir.) sem gera það sömuleiðis og er fyrirmynd hér.