146. löggjafarþing — 59. fundur,  25. apr. 2017.

tóbaksvarnir.

431. mál
[16:30]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Óttarr Proppé) (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég tel að þetta frumvarp sé sett fram í meðalhófi. Það er ákveðinn grunnur í hugsun og framsetningu frumvarpsins — þ.e. neytendaendinn, takmarkanir á styrkleika vökva, merkingar, öryggismál o.s.frv. — sem er hluti af evrópskri innleiðingu sem við munum þurfa að taka inn í okkar lög eins og Norðmenn gera nú í sumar. Ég tel að það sé meðalhóf. Ég ítreka það sem ég sagði áðan að þrátt fyrir að þetta sé tiltölulega ný vara á markaði og rannsóknir séu takmarkaðar þá höfum við áratugalanga reynslu af nikótíni sem efni og það hversu auðvelt er að ánetjast nikótíni er vel þekkt staðreynd. Horft er til nikótíns sem ánetjandi vöru við framlagningu þessa frumvarps.