146. löggjafarþing — 59. fundur,  25. apr. 2017.

tóbaksvarnir.

431. mál
[16:34]
Horfa

Pawel Bartoszek (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er líklegast engu að síður þannig að þegar kemur að hylkjunum gætu gilt einhverjar aðrar reglur um hvar þau eru seld, en það er kannski aukaatriði.

Mínar megináhyggjur ef ég fæ bara að orða þær beint, eru þær að okkar besta þekking í dag bendir til að þessar vörur séu þrátt fyrir allt talsvert hollari en þær vörur sem menn neyta í dag, sem eru venjulegar sígarettur þannig að jafnvel þótt neysla á nikótíni myndi eitthvað aukast væru heildaráhrifin hugsanlega jákvæð. Þess vegna velti ég fyrir mér og langar að spyrja ráðherra hvort það sé ekki rétt skilið hjá mér að með ýmsum öðrum reglum þar sem við leggjum í rauninni að jöfnu neyslu tóbaks í þessu formi eða öðru formi, bann við neyslu þess á ákveðnum stöðum, séum við ekki alveg örugglega að ganga lengra en reglugerð Evrópusambandsins kveður á um. Gætum við ákveðið að ganga skemur ef við kysum svo að gera?