146. löggjafarþing — 59. fundur,  25. apr. 2017.

tóbaksvarnir.

431. mál
[16:35]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Óttarr Proppé) (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Eins og ég tók fram í ræðu minni er frumvarpið lagt fram út frá lýðheilsulegum grunni. Nýlegar rannsóknir á Íslandi sýna fram á að nýgengi notkunar á rafsígarettum og nikótínvökva er langt fram yfir nýgengi reykinga hjá ungu fólki á Íslandi. Það er áhyggjuefni. Það er áhyggjuefni að töluverður hópur 16 ára unglinga og ungmenna á Íslandi neytir reglulega rafsígarettna með nikótínvökva án þess að hafa reykt eða ánetjast nikótíni í gegnum tóbak. Það er í raun og veru sá hluti, áhyggjur af nýgengi nikótínfíknar, sem rekur þetta áfram.

Varðandi seinni hluta spurningar hv. þingmanns um takmörkun á notkun á opinberum stöðum þá er það vissulega rétt að hér er gengið lengra en í evrópsku tilskipuninni, skemur en (Forseti hringir.) í sumum nágrannalöndum en lengra en í öðrum. Það er (Forseti hringir.) ákvörðun okkar hér á Íslandi.