146. löggjafarþing — 59. fundur,  25. apr. 2017.

tóbaksvarnir.

431. mál
[17:09]
Horfa

Hildur Sverrisdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka heiðurinn, að fá andsvar frá hæstv. ráðherra, og er ljúft og skylt að svara honum. Þegar ég talaði um að fara á mis við stórkostlegt tækifæri til að koma í veg fyrir reykingar var ég fyrst og fremst að leggja út frá þeim sem reykja sígarettur nú þegar. Þar með er ég að vísa í tiltölulega, get ég gefið mér, almenna hegðun, almennt mynstur, um að maður lætur ekki af einhverju sem manni finnst betra ef maður fær enga gulrót í staðinn. Maður getur gefið sér að manni þyki diet kók verra á bragðið en venjulegt kók en láti sig hafa það stöku sinnum þegar maður er að reyna að hemja sykurneyslu. Það væri ólíklegt að maður drykki diet kók ef maður sæti hvort sem er uppi með sykurneysluna. Ég var að vísa til þessa varðandi t.d. almannarýmin og hvernig við nálgumst þessar vörur. Ef það á að vera nákvæmlega sama kvöð að vera með rafrettu og sígarettu er hvatinn til að hætta að reykja kannski orðinn minni. Það var það sem ég vísaði í. En auðvitað tek ég undir með ráðherra að það eigi að róa að því öllum árum að reyna að sporna við reykingum ungmenna. Miðað við þær rannsóknir sem ég hef glöggvað mig á, og við erum ekki að fara að rífast um rannsóknir hér, er mjög takmarkað sem sýnir fram á að þú farir úr rafrettu yfir í sígarettu. Ef við stöndum hugsanlega með það í höndunum að það versta sem mögulega getur gerst er að reykingar ungmenna hverfi en einhver hluti þeirra notar rafrettu með nikótíni reglulega — það er mögulegt, það er ekki fullkomið, en er það ekki skárra?