146. löggjafarþing — 59. fundur,  25. apr. 2017.

tóbaksvarnir.

431. mál
[17:20]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni svörin. Spurningin sem hv. þingmaður náði ekki frá mér var einfaldlega: Hver er afstaða hennar til þess ákvæðis frumvarpsins sem lýtur að auglýsingum og markaðssetningu, þ.e. að óheimilt sé að auglýsa eða hafa sýnilegt, að undanskildum sérvöruverslunum?

Hv. þingmaður kom í lok andsvars síns inn á unga fólkið. Mig langar einmitt að spyrja út í það. Ég held að enginn sé ósammála því að huga þurfi að því og að nýgengi, sem er skelfilegt orð, að fleira ungt fólk byrji að nýta vöruna, svo ég leyfi mér að reyna að hætta að tala stofnanamál. Við erum öll sammála um að huga beri að því. Telur hv. þingmaður að einfalt aldursbann, þ.e. aldurshámark, sé nóg í þeim efnum til að sporna gegn því?

Ég hlakka til að heyra svör hv. þingmanns. Hv. þingmaður fékk mig til að hugsa aðeins öðruvísi um hlutina. En að loknu öðru andsvari hennar ætla ég hins vegar að stíga út úr þessum sal og út úr þessu húsi og út í almannarýmið, bæði af því að mér ber það samkvæmt lögum en einnig af því að ég sýni tillitssemi gagnvart þeim sem í kringum mig eru. (Gripið fram í: Ætlar þú út að reykja?)