146. löggjafarþing — 59. fundur,  25. apr. 2017.

tóbaksvarnir.

431. mál
[17:22]
Horfa

Hildur Sverrisdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta. Varðandi auglýsingarnar hef ég svo sem ekki greint það í þaula í þessu frumvarpi þar sem ég hnaut um svo margt annað fyrst. En það er auðvitað eftir í vinnunni fram undan. Mín fyrstu viðbrögð við því eru svipuð, það þarf að mæta raunveruleikanum. Ef við ætlum að fara í þá gjá, að mér finnst, að setja stórt samasemmerki milli þessa og sígarettna, þá er það synd. Hins vegar er þetta ekki skaðlaus vara. Öll umgjörð og kynning og umræða um hana og sýnileiki og nálgun þarf að bera keim af því. Ég held að þetta sé einhvers konar millivegur sem vel er hægt að finna út úr, sem hæfir þessari vöru. En það er verkefni sem er vandmeðfarið. Við höfum ekki mörg fordæmi fyrir framan okkur um hvort þetta fer í þennan angann eða hinn heldur þurfum að finna það út. Það er verkefni og það er eins með auglýsingarnar og allt hitt að mínu mati.

Varðandi aldurstakmarkið. Nei, við höfum kannski séð að aldurstakmark eitt og sér gerir engin kraftaverk en það er mjög mikilvægur þáttur í að senda skilaboð um hvað okkur þykir æskilegt út í samfélagið gagnvart ungmennum. Ég var ein þeirra sem störfuðu fyrir jafningjafræðsluna á fyrstu árum hennar og vil meina að öll almenn forvarnastarfsemi og umræða, kreddulaus, pínu sönn, sé það sem skiptir mestu máli gagnvart ungmennum.