146. löggjafarþing — 59. fundur,  25. apr. 2017.

tóbaksvarnir.

431. mál
[17:24]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Þetta eru áhugaverðar umræður um frumvarp til laga um breytingu á lögum um tóbaksvarnir, um rafsígarettur. Ég ætla að lýsa mig ánægða með þetta frumvarp, mér sýnist a.m.k. við fyrsta lestur að ég geti verið því í meginatriðum sammála, sérstaklega út frá forvarnamálum og lýðheilsustefnu og öðru slíku sem ég hefði kannski viljað gera meira að umtalsefni í þingsal heldur en tækifæri hafa gefist til. Mér fannst nefnilega í umræðunni meðan þetta var í vinnslu að það liti svolítið út eins og það væri verið að setja á bann og fannst fólk tala almennt þannig að það yrði bara sett út af sakramentinu eða öllu heldur væri tekið af fólki þetta tækifæri til þess t.d. að hætta að reykja. Það er alls ekki svoleiðis. Ég gleðst yfir því vegna þess að ég held að þetta sé gullið tækifæri fyrir mjög marga til þess að láta af tóbaksneyslu.

Mér fannst áhugavert það sem kom fram hér áðan, að það væri eins og menn væru að missa af tækifærinu til að hætta að reykja ef ákvæði yrðu sett fram með einhverjum öðrum hætti en undir lögum um tóbaksvarnir. Ég sé ekki alveg hvernig það kemur heim og saman. Ég hef verið að horfa t.d. á Youtube-myndbönd af fólki sem hefur nýtt sér þetta til þess að hætta að reykja og segir frá reynslu sinni, er í raun að segja að það sé „veiparar“. Allt þetta fólk lýsir betri heilsu eftir mislangan reykingatíma og eftir mislangan tíma með notkun rafsígarettu. Meira að segja var ein kona sem sagði að hún setti ekki fyrir sig þá fyrirhöfn sem í því fælist að sækja sér rafsígarettu og fylgihluti og annað sem hún hefur þurft að gera. Við skulum átta okkur á því að þetta er ekki í boði með sama hætti og t.d. tóbak um allt land, svo við setjum það í eitthvert samhengi. Þótt það séu einhverjar verslanir á höfuðborgarsvæðinu sem selja þessa vöru þá er það ekki svo úti um allt land þannig að fólk hefur keypt þetta á netinu og víðar. Þetta voru nokkuð margir einstaklingar og enginn þeirra sagðist hafa sett það fyrir sig að þurfa að hafa fyrir því að sækja þetta. Þeir töluðu heldur ekki um að það væri erfitt að mega ekki nota rafrettur annars staðar en það hefði haft tækifæri til að reykja öll undanfarin ár. Mér hefur fundist það vera kannski inntakið í umræðunni hér í dag að það sé mjög erfitt að mega ekki nota rafrettur út um allar koppagrundir. Mér þótti þetta viðhorf fólks áhugavert sem lýsti þarna reynslu sinni, það kom a.m.k. ekki fram að það hefði almennt áhyggjur af því.

Mig langar að lesa aðeins upp úr færslu á netinu hjá einum sem, eftir að hafa reykt í rúm 20 ár og gert margar misheppnaðar tilraunir til þess að hætta, ákvað síðasta vor að reyna við rafretturnar. Árið er að verða liðið og löngunin hefur ekki verið til staðar í sígarettur eftir að viðkomandi hætti að reykja. Hann gat líka fljótlega verið innan um fólk sem reykti án þess að það vekti einhver óþægindi. Líkamlegt ástand hefur batnað og það kom líka fram hjá öllu þessu fólki sem ég var að vitna í áðan. Þessi aðili er auðvitað að nota rafrettur eins og þær voru upphaflega ætlaðar, þ.e. til að aðstoða fólk við að hætta tóbaksreykingum. Ég þekki svolítið af fólki sem hefur farið þá leið og nýtt rafrettur í þeim tilgangi og vegnað ágætlega. Ég held, í ljósi þess að hér hefur verið rætt um að við höfum ekki margar rannsóknir og þær virðast eitthvað togast á, að það sé áhugavert fyrir okkur sem litla þjóð að láta kanna það hversu margir hafi hætt tóbaksreykingum nú þegar með þessum hætti. Það styður auðvitað öll svona mál ef við höfum slíkar upplýsingar og bæði upp á forvarnir og annað þá skiptir það máli að hafa einhverja statístik.

Markmið hlýtur svo alltaf að vera fyrir reykingafólk sem er að reyna að hætta að reykja með þessari aðferð að leggja á endanum rafrettuna á hilluna. Ég myndi alla vega ætla að það væri svo. Nú þekkjum við eflaust öll einhverja sem hafa tuggið nikótíntyggjó í áratugi og gengur mjög illa að venja sig af því. En ég þekki dæmi um að fólk sé komið mjög nálægt því að vera tóbakslaust með þessari notkun þannig að þá stendur svolítið eftir spurningin um að vera með eitthvað í höndunum. Ég held að þetta sé af hinu góða.

Það er kannski áhyggjuefni að það er ekki svo að allir noti rafsígarettur í þessum tilgangi. Ég þekki dæmi þess að ung kona, tæplega þrítug, aldrei nokkurn tímann reykt, hafi verið að „veipa“ bara af því að það var í boði. Þegar ég innti hana eftir því hvers vegna hún hefði byrjað á þessu þá gat hún eiginlega ekki svarað því. Það er þetta nýgengi og það er miður. Þarna er ég að tala um unga konu sem hefur alla tíð verið mjög á móti tóbaksneyslu en hefur einhvern sogast inn í þetta af því að það er engin hætta eða það er upplifunin, að það sé engin hætta.

Ég vil a.m.k. ekki taka sénsinn. Hér var verið að tala um það áðan að ef þetta myndi ekki lúta stífum reglum þá værum við að taka ákveðna áhættu. Ég held að það sé svoleiðis. Ég er ekki tilbúin til að taka þá áhættu með unga fólkið okkar eða aðra, þetta er ekki bara yngsta fólkið, þetta eru fleiri, en það er auðvitað áhættuhópurinn sem ég hef mestar áhyggjur af, miðað við hvað okkur hefur gengið vel í tóbaksvörnunum. Hvort þetta veldur því að fólk sem ekki hefur reykt en byrjar að nota rafsígarettur fer svo yfir í eitthvað annað skal ósagt látið. Eins og hér hefur komið fram eru kannski ekki nógu margar rannsóknir sem geta sýnt fram á að svo sé, en það er eins og ég segi ekki áhætta sem ég vil taka.

Það er spurning um hvort við leggjum t.d. til að verðið hækki eitthvað sérstaklega eða eitthvað slíkt. Ég held að það sé ekkert endilega skynsamlegt. Þá gætum við verið að vinna gegn markmiðinu sem við viljum ná, þ.e. að fá fleiri til þess að nýta sér þetta í þeim tilgangi að hætta tóbaksnotkun og hafa sannarlega gagn af því. Ef það er ekki meiningin þá held ég að allt annað hér geti verið mér að skapi, þ.e. að varan lúti þessum reglum eða auglýsingabanni, hún sé merkt með þeim hætti sem hér er lagt til, lúti aldurstakmörkunum og fleira og a.m.k. við fyrsta lestur finnst mér það vera frekar jákvætt.

Hér hefur kannski ekki verið mikið rætt um fræðslumálin, ég er ekki búin að lúslesa frumvarpið en ég er þó búin að fara í gegnum það. Ég veit ekki hvort það hefur farið fram hjá mér en í tóbaksvarnalögum eru ákvæði um fræðslumál til þess að draga úr notkun á sígarettum og ég velti fyrir mér hvort eitthvað slíkt sé fyrirhugað í þessu, að gera það með einhverjum sambærilegum hætti og hvort þess þarf. Það kemur kannski fram í vinnslu nefndarinnar við þetta mál hvort slíkt sé æskilegt.

Í greinargerð er töluvert vitnað í löggjöf annarra landa, það er vitnað í Alþjóðaheilbrigðismálastofnunina og það er vitnað í Krabbameinsfélagið og ýmsa aðila sem ég hef fram til þessa tekið mark á þegar verið er að fjalla um ýmis önnur mál. Ég sé ekki ástæðu til annars en að gera slíkt hið sama núna. Það sem ég spurði mig að þegar ég las þetta, af því að það er Neytendastofa sem á að fara með markaðseftirlit, sölu og slíkt, það er svo heilbrigðiseftirlit með tóbaksnotkuninni og öllu því, hvort sömu reglur gilda um þá sem selja tóbak. Hér er Neytendastofu veitt heimild til að taka gjald fyrir móttöku tilkynninga um leið og henni er gert að birta á vefsíðunni upplýsingar um aðila sem uppfyllt hafa skilyrði tilkynningarinnar. Ég velti því fyrir mér hvort hið sama gildi um þá sem selja tóbak, þ.e. þessi gjaldtökuheimild.

Mér finnst líka mjög gott að sjá þennan nýja kafla um að það verði óheimilt að flytja inn, framleiða og selja áfyllingarílát sem innihalda einhvers konar aukefni, sem eru þá vítamín eða eitthvað annað sem skapar þá hugmynd um að varan hafi í för með sér heilsufarslegan ávinning. Hér er nefnt koffín, tárín og önnur aukefni og örvandi efni sem eru tengd orku og lífsþrótti, efni sem lita losunina, auðvelda innöndun o.s.frv. og efni sem hafa krabbameinsvaldandi, stökkbreytandi eða æxlunarskaðandi eiginleika. Þetta er auðvitað bara til þess fallið, ef þetta yrði leyft, að ýta undir þá ímynd að notkunin sé skaðlítil eða skaðlaus. Ég held að það sé bara af hinu góða að það verði ekki heimilað.

Mér var bent á rannsókn áðan frá háskólanum í Kaliforníu, miðstöð um fræðslu og rannsóknir á sviði tóbaksvarna, þar sem kemur fram að við fyrstu sýn virðist notkun á rafsígarettum, sérstaklega þegar þær eru notaðar með tóbaki, auka áhættuna á hjartaáföllum. Það er auðvitað verið að gera ýmsar rannsóknir í þessum töluðu orðum um rafsígarettur. Það er kannski nýtt að þær séu í svo mikilli notkun eins og orðin er.

Það var annað sem ég ætlaði að loka ræðu minni með, það sem kemur fram í lokin um mat á áhrifum. Það er talað um að þetta kosti fyrir ríkissjóð í kringum 17–18 milljónir á fyrsta árinu og síðan 11 milljónir árlega eftir það. Það kemur ekki beinlínis fram í hverju það er fólgið annað en hugsanlega kostnaður vegna Neytendastofu sem á að fylgja þessu eftir og vinna með tilkynningarnar og annað slíkt. Það væri áhugavert að fá svör við því í hverju þessi kostnaður er falinn.

Mér finnst þetta líta ágætlega út. Það er verið að heimila sölu með takmörkunum. Mér finnst ekkert hér kalla á að gera þetta frjálsara en eitthvað annað og í þeirri vinnu sem hér hefur farið fram og kemur fram í lokaorðunum er niðurstaðan sú að þetta er leið sem tryggir þeim sem vilja reyna að hætta að reykja tækifæri til þess að nota rafsígarettur, aðgengi að öllu því sem til þarf til þess, en hins vegar er reynt að sporna við nýgengi. Það er eitthvað sem ég get ekki annað en tekið undir.

Það er áhugavert að lesa vel yfir skýringar við 5. gr. þar sem farið er yfir það sem kemur fram hjá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni að í löndum sem hafa náð góðum árangri í tóbaksvörnum muni rafsígarettunotkun ekki verða til þess að minnka sjúkdómsbyrði vegna reykinga sem miklu nemur. Þetta er eitt af því sem rannsóknir eigi kannski eftir að leiða í ljós, sem ég er ekki sannfærð um að hafi í rauninni komið fram enn þá, en eiga vonandi eftir að (Forseti hringir.) koma í ljós, því ég held að á næstu misserum hljóti að verða gerðar mjög margar rannsóknir á þessari notkun.