146. löggjafarþing — 59. fundur,  25. apr. 2017.

tóbaksvarnir.

431. mál
[17:39]
Horfa

Bjarni Halldór Janusson (V) (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg rétt sem hv. þingmaður segir, að við eigum að torvelda ungu fólki að ánetjast ávanabindandi efni. En þetta gengur svo sem í báðar áttir. Við eigum að hugsa þetta aðeins lengra. Við eigum líka að líta á þetta sem einhvers konar leið til þess að fara úr sígarettum yfir í eitthvað annað sem er skaðminna.

Með leyfi forseta ætla ég að vitna í rannsókn, National Youth Tobacco Survey, sem var gerð á bandarískum framhaldsskólanemum. Hún leiddi í ljós að árið 2011 reyktu 15% framhaldsskólanema sígarettur, en 0,3% reyktu rafsígarettur. Rúmlega þremur árum síðar reyktu 4% framhaldsskólanema sígarettur en 8% reyktu rafsígarettur. Það þarf þá að skoða hvernig það kemur út í heildina vegna þess að miðað við það sem maður hefur heyrt eru rafsígarettur ekki eins hættulegar og sígarettur þótt þær séu vissulega ekki hættulausar.

Sígarettureykingar eru ein hættulegasta ógnin gagnvart heilsu okkar þannig að við verðum líka að hafa það í huga. Við megum ekki torvelda fólki að leita í einhver svona úrræði þegar það er að hætta að reykja. En auðvitað er mikilvægt að skapa einhvers konar ramma í kringum þetta, allir eru sammála um það. Það eru allir á móti því að ungt fólk byrji í auknum mæli að reykja, en við þurfum að hugsa þetta aðeins lengra og taka tillit til þessara þátta líka.