146. löggjafarþing — 59. fundur,  25. apr. 2017.

tóbaksvarnir.

431. mál
[17:41]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég get alveg verið sammála þingmanninum í því að við getum þurft að hugsa þetta svona. Það var akkúrat það sem ég sagði, hér er verið að gefa fólki tækifæri til þess að fara úr sígarettureykingum yfir í rafsígarettur. Ég held að það sé af hinu góða, ef maður getur sagt sem svo, að fólk sem vill virkilega hætta að reykja nýti sér þennan kost. Áhyggjuefnið er hins vegar það að þeir sem bæta rafsígarettum við, eins og segir í rannsókn frá Bandaríkjunum sem ég vitnaði í — þar segir að þær auki t.d. álag á hjarta og annað slíkt. Við ætlum hugsa þetta til lengri tíma með því að heimila notkun rafrettna en með einhverjum takmörkunum. Mér finnst eiginlega ekkert rökstyðja það að rafrettur megi vera eins og hver önnur neysluvara, ekki frekar en ég hef litið á brennivín í búðir sem hverja aðra neysluvöru.

Ég tek undir í rauninni með Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni hvað það varðar þar sem þetta er sérstaklega tekið fram. Það er líka allt í lagi að vitna til þess sem fram kemur í frumvarpinu, með leyfi forseta:

„Enn fremur tekur Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin fram í umfjöllun sinni um rafsígarettur og áfyllingarílát að margt bendi til þess að aukning sé umtalsverð í skráðum tilvikum nikótíneitrunar hjá einstaklingum og telur stofnunin margt benda til þess að ástæðu þess megi að miklu leyti rekja til aukinnar neyslu nikótínvökva í rafsígarettum.“

Þó að rafrettur séu klárlega betri kostur, ég trúi því að þær séu betri kostur, getum við ekki álitið sem svo að þær séu skaðlausar. Þess vegna held ég að markmiðið sé að reyna að stemma stigu við hversu sterkur vökvinn má vera eins og hér er verið að gera tilraun til, og að koma því líka inn í umræðuna að notkun rafrettna er betri en sígarettureykingar, en við eigum endilega að hvetja til notkunar þeirra.