146. löggjafarþing — 59. fundur,  25. apr. 2017.

tóbaksvarnir.

431. mál
[17:50]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég sagði í ræðu minni að ég væri nefnilega ekki með tölur yfir það hvaða áhrif þetta hefur. Ég vitnaði hins vegar í fólk sem hefur verið hætt að reykja og notað þetta til þess í mislangan tíma, fólk sem var búið að reykja mjög lengi, mislengi, allt frá því að byrja 12 ára og upp í mun eldra, fólk á öllum aldri sem hefur nýtt sér þetta úrræði í einhvern tiltekinn tíma og lýsir betri líðan. Ég sagði hins vegar að við þyrftum miklu fleiri rannsóknir. Ég held að það sé verið að gera þær í þessum töluðu orðum vegna þess að þessi möguleiki fólks til að hætta að reykja er að aukast.

Ég nefndi líka að ég þekkti konu sem væri tæplega þrítug, hefur aldrei nokkurn tímann reykt, en er farin að nota rafrettur. Hún hefur alltaf verið mjög mótfallin tóbaksreykingum. Þetta er nokkuð sem við getum ekki horft fram hjá, að þessi áhætta er líka til staðar. Það er kannski ástæðan fyrir því að mér finnst allt í lagi að frumvarpið sé með þessum hætti.

Allt þetta fólk sem ég vitnaði í áðan talar ekkert um að það hafi verið til trafala að sækja sér þessa vöru eða að það hafi verið til trafala að mega ekki reykja inni, mega ekki reykja á veitingastöðum, mega ekki reykja inni í Alþingishúsinu eða hvar það nú er. Flest hefur þetta fólk reykt lengi, hefur þar af leiðandi ekki haft tækifæri til að reykja á almenningsstöðum og setur það bara ekki fyrir sig, finnst það ekki vera aðalmálið, heldur það að geta haft aðgengi að þessu án þess næstum því að læðast með veggjum. Það er einhvern veginn þannig af því að þetta er ólöglegt eins og það er í dag. Það er það sem ég hef upplýsingar um frá fólki sem ég hef hlustað á og þekki persónulega líka sumt þannig að það er mitt inntak í þessari ræðu.

Í ljósi þess hversu fá við erum held ég að rannsóknir til lengri tíma ættu að geta gefið okkar góðar vísbendingar. Þær þurfa eiginlega að fara fram hið fyrsta.