146. löggjafarþing — 59. fundur,  25. apr. 2017.

tóbaksvarnir.

431. mál
[17:56]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Virðulegi forseti. Ég ætla að vera einlægur og heiðarlegur í máli mínu eins og ég reyni almennt að vera og segja að ég er ekki sérstaklega hlynntur þessu frumvarpi. Það kemur kannski þeim á óvart sem halda í þá staðalmynd af Vinstri grænum að þeir séu endalaust einhvers konar forræðishyggjuflokkur. En staðalmynd er að sjálfsögðu ekki rétt mynd. Ég ætla hins vegar að vera heiðarlegur varðandi það líka að ég er heldur ekki algerlega andsnúinn þessu frumvarpi. Ég skil fullkomlega hvað hæstv. heilbrigðisráðherra er að fara með því. Ég er sammála því sem án efa hefur verið rætt víða, og eflaust er rætt út undir vegg hér í þingsalnum núna af þeim hv. þingmönnum sem þar standa og pískra, að það þarf að setja einhvers konar reglugerð og umhverfi utan um þetta mál. Ég held að allir hv. þingmenn sem hér hafa tjáð sig hafi talað þannig og ég held að allir sjái að þannig verður það að vera.

En ég er ekki sannfærður um að lausnin sé sú að taka þetta fyrirbæri og skella því einfaldlega undir tóbak. Að það gildi bara það sama um tóbak og þetta. Af hverju? Af því að við notum sömu líffæri við að neyta vörunnar? Við berum þetta upp að munninum og sjúgum? Í sumum vökvum sem neytt er með þessum hætti er nikótín, ekki í öllum. En það er í ýmsu öðru. Ég játa að mér finnst gæta ákveðins misræmis varðandi ýmislegt. Ég er reyndar mjög ringlaður varðandi margar vörur sem eru skaðlegar almennt. Ég held ég fari ekki með rangt mál þegar ég segi að ég sjái reglulega auglýst nikótíntyggjó og fleira slíkt. Það má ekki auglýsa. Með því er ég ekki að kalla eftir að leyft verði að auglýsa það. En mér finnst vera ósamræmi þarna á milli.

Það er ágætt að fá nokkuð skýrt fram í greinargerð frá hæstv. heilbrigðisráðherra hvað auglýsingar á slíkum vörum gera. Hér segir, með leyfi forseta:

„Sýnileikabann sem tóbaksvörn er byggt á þeim sjónarmiðum að sýnileiki geti stuðlað að neyslu …“

Ég mun t.d. taka þetta með mér ef af umræðu verður um áfengisfrumvarp þar sem þar er lagt til að áfengisauglýsingar verði heimilaðar. Ég hlýt að líta svo á að hæstv. ráðherra og allir sem styðja það frumvarp hljóti þá að taka undir að sýnileiki og auglýsingar eigi við um áfengi eins og um þetta fyrirbæri, sem ég hef ekki nefnt á nafn hingað til. Ég verð að játa að ég varð fyrir mestum vonbrigðum með hæstv. ráðherra yfir því að jafn góður textasmiður og hann er skyldi nota orðskrípið rafsígarettur um þetta fyrirbæri þegar stuðlunin og kliðurinn kalla á að þetta séu kallaðar rafrettur. Með því að kalla þetta rafsígarettur erum við enn fremur að hamra á því að þetta séu sígarettur, bara raf-sígarettur. Alveg eins og rafbílar eru bílar, bara knúnir áfram af rafmagni. En þetta eru ekki sígarettur. Það er ekki svo að hvaðeina sem við sjúgum inn fyrir varir okkar séu sígarettur. Þá væri nú lífið erfitt fyrir marga.

Ég tel ýmislegt erfitt við þessa nálgun, að taka rafretturnar og skella þeim í sama lagaramma og regluverk og sígarettur og tóbak. Ég held til dæmis að lögin sjálf séu í ósamræmi við 1. gr., markmið laganna. Þar segir, með leyfi forseta:

„Markmið laga þessara er að draga úr heilsutjóni og dauðsföllum af völdum tóbaks, m.a. með því að stuðla að samdrætti í neyslu tóbaks og vernda fólk fyrir áhrifum tóbaksreyks.“

Þó fjallar þessi breyting á engan hátt um það. Hún fjallar ekkert um tóbak.

Ég held að það sé rétt sem komið hefur fram hjá hv. þingmönnum hér — ég átti orðastað við hv. þm. Hildi Sverrisdóttur fyrr í umræðunni — að með því að setja rafrettu undir sama hatt og tóbak muni færri nýta sér þær sem leið til að hætta að reykja. Það er í ósamræmi við markmið laganna og innihald. Inn á það er komið í skýringum um einstaka greinar frumvarpsins, með leyfi forseta:

„Þótti eðlilegra að tala um að markmið laganna væri að draga úr heilsutjóni og dauðsföllum af völdum tóbaks, m.a. með því að stuðla að samdrætti í neyslu tóbaks, og vernda fólk fyrir áhrifum tóbaksreyks. Eðli málsins samkvæmt minnka lögin sem slík ekki tóbaksneyslu heldur eiga að hafa áhrif í þá átt að tóbaksneysla dragist saman og þannig verði minna um heilsutjón og dauðsföll af völdum tóbaks.“

Ég held einmitt að það að setja rafrettur undir sama hatt og tóbak geti orðið til þess að þessi góðu markmið hafi þau áhrif að erfiðara verði að ná þessu markmiði. Að færri muni nýta sér rafrettur til að hætta að reykja.

Ég átti orðastað áðan við hv. þm. Hildi Sverrisdóttur um hvar nota mætti þessa vöru. Ég spurði þá af einlægni, og spyr hér líka út í tómið, ég átta mig ekki á hvað er eðlilegt í þessum efnum: Er hægt að banna einhverjum sem stendur nærri manni að anda að sér t.d. nikótínlausum vökva og blása gufu yfir mann? Gufu af nikótínlausum vökva? Ég átta mig ekki á því. Við erum komin út í svo flókin atriði í mannlegum samskiptum. Tæknin fleytir okkur það fljótt áfram að ég veit ekki alveg á hverju lög þurfa að taka. En skaðsemi af völdum tóbaksreyks? Þetta snýst ekki um hana. Við erum ekki að tala um tóbaksreyk heldur gufu af vökva. Það er allt annar hlutur.

Ég velti fyrir mér hvort ekki hefði verið eðlilegra að setja sérstaka lagaumgjörð um þessa vöru, af því að með því að reyna að troða vörunni undir lög um tóbak og tóbaksvarnir lendum við í innri mótsögnum, að tala um allt annan hlut en við setjum lög um. Ég held að það geti beinlínis unnið gegn markmiðum laganna sjálfra. En þá kemur að því hvað við viljum gera varðandi þessa vöru.

Ég held að hæstv. ráðherra hafi mjög góðan vilja og ásetning í þessu máli. Ég er sammála nánast öllu því sem hann kom inn á í framsögu sinni um málið þó að ég sé kannski ekki endilega sammála málinu sjálfu. Mótsögnin felst einmitt í að við erum að fjalla um vöru sem við erum öll sammála um að verði að koma í veg fyrir að unglingar og ungmenni neyti. Er leiðin sú að skella tóbakshattinum á það? Ég er rosalega efins um það. En ég tala hér heldur ekki sem einhver djúpvitur stjórnspekingur og segi hæstv. ráðherra að svona eigi þetta að vera. Ég er meira að deila þönkum mínum um þetta mál.

Ég held að það séu tvö sjónarmið sem sérstaklega verði að hafa í huga í þessum málum. Annars vegar er það staðreynd, eins og hæstv. ráðherra fór ágætlega yfir, að unglingar byrja að nota rafrettur. Ef ég man rétt talaði hæstv. ráðherra um að 14% 16 ára unglinga hefðu prófað eða neytt þessarar vöru. Við skulum ekki láta eins og það sé bara ekkert mál, að frelsi okkar til að „veipa“ sé svo stórkostlegt að við eigum ekki að taka tillit til þess. Það er alls ekki þannig. Við þurfum að vera mjög vakandi gagnvart því. Hitt sjónarmiðið sem við þurfum að vera vakandi gagnvart er sú staðreynd, sem er líka óumdeilanleg, að rafrettur hafa hjálpað ótalmörgum við að hætta að nota tóbak, sem er mun skaðlegra heilsunni. Við getum ekki lokað augunum fyrir því. Þess vegna finnst mér að með reglum um rafrettur þurfum við að finna meðalveg þarna á milli.

Í frumvarpinu segir að farinn sé meðalvegur, sem ég er ekki viss um að ég sé sammála. Hér segir, með leyfi forseta:

„Niðurstaða þeirrar vinnu sem fram fór við undirbúning frumvarpsins er að sú leið sem hér er farin sé til þess fallin að tryggja þeim einstaklingum sem óska þess að hætta að reykja með hjálp rafsígarettna tækifæri til góðs aðgengis að rafsígarettum og áfyllingarílátum. Aftur á móti er farin nokkuð varfærin leið með það fyrir augum að koma í veg fyrir nýgengi í hópi einstaklinga sem ánetjast nikótíni, sér í lagi meðal ungs fólks.“

Jú, hér er farin varfærin leið þegar kemur að því. En ég er ekki viss um að leiðin sé varfærin þegar kemur að því að sem flestir geti nýtt sér rafrettur sem hjálpartæki til að hætta að reykja.

Ég ætla ekki að koma með neina lausn. Ég held að hæstv. ráðherra leggi þetta mál fram af góðum hug. En ég held að hæstv. ráðherra sé á villigötum varðandi það að reyna að taka vöru eins og rafrettur eða fyrirbæri eins og þær — mér leiðist að alltaf sé verið að tala um öll þessi efni, hvort sem er áfengi eða sígarettur, sem hverja aðra nauðsynjavöru, og skilgreina út frá öðru fyrirbæri. Það er það sem ég held að orsaki vandamálið, valdi hörðum viðbrögðum sem mjög víða hafa heyrst við þessu máli. Sennilega geta fáir þrýstihópar orðið æstari en akkúrat þeir sem háðir eru einhvers konar tóbaki. Við skulum ekki halda okkur við stóryrðin. En það er umhugsunarefni, og við þurfum að taka það alvarlega, hvort frumvarpið eins og það er núna geti orðið til þess að færri hætti að reykja tóbak. Ef svo er þá er þetta ekki gott frumvarp. Þá er það bara ósköp einfalt mál. Þá þarf að finna leið til að sú verði ekki raunin.

Hér er frumvarpið lagt fram og fer til vinnu í nefndinni. Ég hvet þá nefnd sem um þetta mun fjalla, og svo okkur öll, til að loka ekki augunum fyrir því að sú geti orðið niðurstaðan ef frumvarpið verður samþykkt óbreytt. Við viljum öll einhvers konar umgjörð, einhvers konar lög, um þetta, og viljum ekki óheftan aðgang óháð aldri eða hverju sem er. Við viljum gera þetta mál eins vel úr garði og hægt er. Ég ítreka í lokin að það er mikilvægt að það hamli því ekki um of að fólk nýti sér rafrettur til að hætta að reykja tóbak.