146. löggjafarþing — 59. fundur,  25. apr. 2017.

tóbaksvarnir.

431. mál
[18:19]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Við ræðum frumvarp um breytingu á lögum um tóbaksvarnir með síðari breytingum er varða rafsígarettur. Að því er virðist er um að ræða frumvarp sem ætlað er að skýra nánar og mynda skýrandi ramma utan um það nýmæli sem rafsígarettur eru, þótt þær hafi verið til staðar hér og víðar í nokkur ár. Hér er verið að búa til ramma eða regluverk um rafrettur um leið og frumvarp sem byggir á tilskipunum Evrópusambandsins er lagt fram.

Í frumvarpinu, sem hæstv. heilbrigðisráðherra leggur fram, er meðal annars verið að skýra út og koma inn á að þær upplýsingar er varða innihald vörunnar sem um ræðir, rafsígarettur og áfyllingarílát, séu skýrar og vel afmarkaðar, sem ég tel af hinu góða, og, eins og kemur fram í greinargerð, að skýra reglur um heimildir til sölu, markaðssetningar og notkunar á rafsígarettum og áfyllingarílátum. Einnig er mælt fyrir um eftirlit með innflutningi, dreifingu og sölu á rafsígarettum og áfyllingarílátum til að tryggja viðhlítandi öryggi þessara vara á markaði.

Eins og kemur fram í greinargerð hefur, þrátt fyrir að ég hafi nefnt að um nokkurra ára nýmæli væri að ræða, notkun rafsígarettna aukist ört hér á landi. Hv. þingmaður, sem talaði á undan mér, gaf lítið fyrir rannsóknir og ég vil því nota tækifærið í ræðustól Alþingis til að hvetja kjörna fulltrúa til að virða þær rannsóknir sem hafa komið fram, hvort sem er um þetta mál eða annað. Samt sem áður virðist enn skorta á nákvæmar niðurstöður og enn fleiri rannsóknir er lúta að rafsígarettum og því tel ég það af hinu góða hjá hæstv. heilbrigðisráðherra að koma fram með þetta frumvarp nú til að skýra reglur og ramma í kringum notkun rafrettna.

Ég minntist á kannanir og rannsóknir. Það er vert, í ljósi aukinnar notkunar rafsígarettna, að hafa í huga að það kom fram í könnun Rannsókna og greiningar í október síðastliðnum að 46% stráka undir 18 ára aldri hafa prófað rafrettu einu sinni eða oftar og 40% stúlkna sögðust hafa prófað slík tæki. Rafrettur eru af mismunandi toga. Sumar þeirra innihalda nikótín en aðrar ekki. Það hefur hingað til ekki verið skýrt afmarkað. Fyrir þá sem nota rafrettur er einfaldlega ekki skýrt hvort viðkomandi áfyllingarefni inniheldur nikótín eða ekki. Ég held því að það sé af hinu góða að gera þetta skýrara og að settar verði reglur um sölu, markaðssetningu og notkun á rafsígarettum eins og fram kemur í frumvarpi hæstv. ráðherra. Mér þykir líka gott að vitnað sé í Alþjóðaheilbrigðismálastofnunina sem hefur lagt áherslu á að ríkið setji sömu reglur um rafsígarettunotkun og gilda um tóbaksreykingar þar til sýnt hefur verið fram á skaðleysi varanna. Þetta er því gott og jákvætt skref er varðar forvarnir, en eins og kemur fram í rannsókn sem áðurnefnt fyrirtæki greindi frá í febrúar á þessu ári er hlutfall ungs fólks sem hefur prófað rafrettur mjög hátt og innan þess hóps eru margir sem hafa um leið prófað rafrettur sem innihalda nikótín.

Það er líka annað sem mig langaði að benda á. Skiptar skoðanir eru um það á milli þingmanna sem talað hafa í dag, og líka meðal fræðimanna og lækna, hversu mikil skaðsemin sé, hvort hún sé afskaplega mikil, hvort rafrettur auki líkur á að fólki byrji að reykja, og auki þar með skaðsemi reykinga, eða hjálpi fólki til að hætta að reykja. Í þeim efnum finnst mér áhugavert það sem kom fram í máli Láru G. Sigurðardóttur, læknis og fræðslustjóra hjá Krabbameinsfélagi Íslands, á ráðstefnu sem haldin var 29. september síðastliðinn á vegum samstarfshóps um forvarnamál sem heitir Náum áttum. Í máli Láru kom fram að það nikótín sem er í rafrettum sé ekkert öðruvísi en annað nikótín. Nikótín sé sterkt ávanabindandi eiturefni og sé flokkað þannig hjá Umhverfisstofnun.

Þetta er eitthvað sem ég held að við séum öll meðvituð um, vonandi. En eins og einnig kom fram í máli Láru hefur verið sýnt fram á að þeir unglingar sem nota rafsígarettur séu líklegri til að leiðast síðan út í sígarettureykingar. Máli sínu til rökstuðnings vitnaði Lára í nokkrar rannsóknir, þar á meðal umfangsmikla bandaríska rannsókn sem sýndi fram á þau tengsl. Einnig nefndi Lára þátt sem mér finnst áhugaverður í þessari umræðu um rafretturnar, þ.e. að tóbaksfyrirtækin hafa fjárfest gríðarlega mikið í rafsígarettuiðnaðinum og að fjárhæðir sem fara í kaup á rafsígarettuauglýsingum hafi hátt í tuttugufaldast á þremur árum. Þarna er greinilega gróðavon að finna af hálfu tóbaksfyrirtækjanna; þau sjá gróðatækifæri á markaði með rafsígarettur. Og eins og Lára G. Sigurðardóttir sagði á þessari ágætu ráðstefnu er það yngsta kynslóðin sem er auðveld bráð nikótínfíknarinnar. Það er líka áhugavert að þrátt fyrir að sérfræðingur á borð við Guðmund Karl Snæbjörnsson, sem tjáði sig líka um þetta mál á sama fundi, hafi ekki verið á sama máli kom fram í máli Láru G. Sigurðardóttur að 38 rannsóknir hafi sýnt að meira en 90% þeirra sem reyna að hætta að reykja með rafsígarettum tekst það ekki.

Hér er um að ræða stórt og viðamikið mál sem við höfum ekki enn komist alveg til botns í. En það eru nógu afgerandi vísbendingar sem sýna að við þurfum að skýra betur ramma og reglugerðir hvað varðar notkun, merkingar og innflutning rafsígarettna. Í því samhengi fagna ég því sem fram kemur í frumvarpi hæstv. heilbrigðisráðherra að bann gildi um notkun á rafsígarettum, sama bann og gildir um tóbak, þ.e. að óheimilt verði að nota þær í grunnskólum, vinnuskólum sveitarfélaga og leikskólum, hvers konar dagvistun barna og í húsakynnum sem fyrst og fremst eru ætluð til félags-, íþrótta- og tómstundastarfa barna og unglinga. Þetta er mikilvægt mál er varðar forvarnir og okkar yngsta fólk, sér í lagi vegna þess, eins og við höfum áður talað um hér á þessu þingi, að forvarnastarf á Íslandi kemur ekki af sjálfu sér. Það er afrakstur mikillar og þrotlausrar vinnu margra aðila og gerist ekki á einni nóttu. Þegar fram koma nýir hlutir á borð við rafsígarettur sem innihalda nikótín tel ég skynsamlegt að staldra við og hafa vaðið fyrir neðan sig áður en lengra er haldið. Mér finnst gott og ég fagna því að í frumvarpi ráðherrans sé samanburður við nágrannalöndin, hvernig þetta hefur verið útfært þar; ég held að slíkt sé alltaf af hinu góða, með öllum frumvörpum sem fram koma. Þar kemur fram að hlutirnir eru gerðir á mismunandi hátt í nágrannalöndum okkar. Sums staðar eru rafsígarettur felldar undir lög um tóbaksvarnir, eins og í Noregi, en þá rafsígarettur sem falla undir hugtak er nefnist tóbakslíki. Í Finnlandi eru rafsígarettur skilgreindar sem vörur tengdar eða skyldar tóbaksvörum og falla þar með undir tóbaksvarnalög.

Ég fagna því að fram sé komið frumvarp sem skýrir þetta allt saman betur og tekur afstöðu með börnum og unglingum þegar kemur að forvarnamálum. Ég hefði viljað sjá skýrt afmarkaðan þátt er varðar fræðslu og forvarnir í grunnskólum landsins og í framhaldsskólum og einnig um merkingar. Ég veit að í frumvarpinu eru ákvæði um útlitsmerkingar á bæði áfyllingarílátunum og rafrettunum sjálfum en ég held að við getum gert betur. En ég held líka að umræða um rafsígarettur sé af hinu góða því að uppi eru mismunandi sjónarmið. Mismunandi rannsóknir hafa komið fram sem sýna mismunandi niðurstöður. En af því sem ég hef kynnt mér eru fleiri rannsóknir sem benda til þess að rafrettur séu ekki sú töfralausn sem margir þingmenn hafa talað um hér til að hjálpa fólki til að hætta sígarettureykingum og draga þannig úr þeirri heilsufarsvá sem sígarettureykingar eru. Því miður held ég að það sé ekki svo einfalt. Það væri ágætt ef það væri svo einfalt, að þarna væri um töfralausn að ræða og við gætum bara svissað yfir í rafsígarettur og þar með gætu þau sem hafa orðið tóbaksdjöflinum að bráð losað sig við hann.

Ég fagna þessu frumvarpi ráðherrans og held að það sé af hinu góða og að við getum stutt hann í þessu máli. Ég hefði viljað sjá meiri áherslu á uppfræðslu og forvarnir til ungs fólks en eins og ég segi held ég að frumvarpið sé af hinu góða og að hann fái að minnsta kosti minn stuðning í þessu máli.