146. löggjafarþing — 59. fundur,  25. apr. 2017.

tóbaksvarnir.

431. mál
[19:16]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Mig langar að spyrja ráðherrann um verð og aðgengi. Hvað erum við að reyna að gera hérna? Tólin eru að hafa áhrif á verð og aðgengi. Leiðirnar sem við förum að markmiðinu, sem er náttúrlega að halda þessu frá börnunum, letja börn og ungmenni til notkunar á þessari vöru, en hvetja fullorðið reykingafólk til að færa sig úr tóbaki yfir í rafrettur, eru að hafa áhrif á verð og aðgengi.

Eins og frumvarpið er sett upp eru áhrifin sem það hefur á aðgengi þau að í dag getur maður náð sér í rafrettuna eða rafpípuna þegar maður situr við skrifborðið og fengið það nikótín sem maður þarf, en eftir að þetta frumvarp er samþykkt getur maður það ekki. Það þarf að fara út. Þá eru margir sem fá sér bara frekar sígarettu, þeim finnst hún kannski enn þá betri. Þá er spurning, ef það er rétt sem hv. þm. Birgitta Jónsdóttir nefndi hér áðan, að það sé 20 sinnum skaðlegra að reykja, þá þarftu bara að fá þér sígarettu í tuttugasta hvert skipti sem þú ferð út og þá eru lýðheilsuáhrifin horfin fyrir þennan hóp fólks. Það er eitt.

Verðið er hitt. Að hvaða leyti hefði þetta áhrif á verð? Getur það þýtt að þegar frumvarpið er orðið að lögum getur ráðherra eða jafnvel ráðuneytið, án þess að ráðfæra sig við ráðherra, farið að hækka verð á einhverjum forsendum? Gæti þetta hækkað verð? Ef verð hækkar þá minnkar neyslan. Hér er vitnað í gögn frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni sem eru oft mjög greinargóð. Ég ætla að fara betur yfir það í seinna andsvari en t.d. varðandi áfengisfrumvarpið eru þar mjög greinargóðar upplýsingar um áhrifin, ef verð er hækkað um 10% þá minnkar neyslan um 4%, ef aðgengi er minnkað um 10% þá fer (Forseti hringir.) neyslan jafnframt niður um 2%. Hefur ráðherrann þessar upplýsingar? Ég mun ræða það í seinna andsvari, en fyrst: Verðið og aðgengið.