146. löggjafarþing — 59. fundur,  25. apr. 2017.

bann við tilteknum frammistöðubætandi efnum og lyfjum.

432. mál
[19:51]
Horfa

Halldóra Mogensen (P) (andsvar):

Frú forseti. Mig langaði til að spyrja hæstv. ráðherra aðeins út í þetta frumvarp. Í 2. lið greinargerðarinnar, um tilefni og nauðsyn lagasetningar, segir, með leyfi forseta:

„Löggæslu- og eftirlitsaðilar hafa einnig kallað eftir nánari reglum þegar kemur að þessum málaflokki vegna aukins innflutnings á framangreindum efnum og því er talið nauðsynlegt að setja lög, m.a. til þess að sporna gegn ólöglegum innflutningi, sölu, dreifingu og framleiðslu umræddra efna og lyfja.“

Þetta er allt gott og blessað. En hvers vegna telur ráðherra nauðsynlegt að refsa fyrir vörslu og notkun þessara efna? Þá er ég aðallega að velta fyrir mér nauðsyn fangelsisrefsinga. Telur hæstv. ráðherra að það að fangelsa notendur þessara efna muni færa okkur nær markmiðum um skaðaminnkun, að fangelsisrefsingin vegna vörslu og notkunar komi í veg fyrir heilsutjón?