146. löggjafarþing — 59. fundur,  25. apr. 2017.

bann við tilteknum frammistöðubætandi efnum og lyfjum.

432. mál
[20:06]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Óttarr Proppé) (Bf):

Frú forseti. Bara rétt í lokin vil ég ítreka að markmiðið með frumvarpinu er að ná utan um ólöglega framleiðslu, innflutning og dreifingu á umræddum efnum m.a. í þeim tilgangi að sporna við glæpum sem gjarnan fylgja þeirri starfsemi. Lögunum er einnig ætlað að tilgreina hvaða stera og vefjaaukandi efni er heimilt að framleiða, flytja inn og dreifa í formi lyfja fyrir þá sjúklinga sem á þeim þurfa að halda. Farið er eftir sömu hugmyndafræði og Danir viðhafa við löggjöf sem nær utan um misnotkun stera og vefjaaukandi efna. Ekki ætlunin að refsa neytendum stera og vefjaaukandi efna.

Eins og kemur fram í greinargerðinni hefur íslenska ríkið verið aðili að samningi Evrópuráðsins gegn misnotkun lyfja í íþróttum frá árinu 1989 ásamt viðbótarbókun við sama samning frá árinu 2003, Kaupmannahafnaryfirlýsingunni frá árinu 2003 og UNESCO-lyfjaeftirlitssamningnum frá árinu 2005. Með lögum nr. 124/2012, um breytingu á íþróttalögum, nr. 64/1998, var staðfest ábyrgð ríkisins á því að lyfjaeftirlit í íþróttum væri framkvæmt hér á landi og að ríkið framfylgdi þeim skuldbindingum íslenska ríkisins.

Eins og skýrt er í greinargerð með frumvarpinu er því ætlað að svara dreifingu, innflutningi, framleiðslu og útflutningi en ekki elta neytendur.

Í 3. gr. um viðurlög kemur fram að það varði sektum eða fangelsi allt að tveimur árum — vel að merkja; allt að — liggi þyngri refsing ekki við broti samkvæmt öðrum lögum að brjóta gegn ákvæðum laga þessara og eftir atvikum reglugerð sem sett er á grundvelli þeirra.

Þá er heimilt að gera upptækan með dómi beinan eða óbeinan hagnað sem hlotist hefur af broti gegn ákvæðum laga þessara.

Lyf og efni sem lög þessi taka til og eru flutt hingað til lands eða seld ólöglega hér á landi skulu gerð upptæk með dómi.

Síðan kemur fram, með leyfi forseta, að:

„Tilraun til brots eða hlutdeild í brotum samkvæmt lögum þessum er refsiverð eftir því sem segir í III. kafla almennra hegningarlaga. Sé brot framið í starfsemi lögaðila má gera lögaðilanum fésekt samkvæmt ákvæðum II. kafla A almennra hegningarlaga.“

Það er skýrt að heimildin kveður á um sekt eða fangelsi allt að tveimur árum eftir alvarleika brotsins. Ég ítreka það. Sjálfur tek ég fram að ég er ekki hlynntur refsistefnu þegar kemur að fangelsun o.s.frv. En engu að síður eru heimildir til að gera sektir og mögulega fangelsisvist við brotum á ýmsum lögum hér á Íslandi. Í þessu tilviki er verið að gera það í þeim tilgangi að koma í veg fyrir dreifingu og framleiðslu á efnum sem eru þekkt skaðleg efni fyrir þá sem þeirra neyta í óhófi. Tilgangurinn er ekki að finna neytendur til að refsa þeim heldur að reyna að koma í veg fyrir það sem virðist vera síaukið magn af þessum efnum í umferð á Íslandi. Ég vona að það útskýri málið aðeins betur.