146. löggjafarþing — 59. fundur,  25. apr. 2017.

bann við tilteknum frammistöðubætandi efnum og lyfjum.

432. mál
[20:10]
Horfa

Halldóra Mogensen (P) (andsvar):

Frú forseti. Mér finnst skipta máli að það sé alveg kristaltært að ekki eigi að fangelsa þá sem nota, neytendurna, og spyr hvort það eigi líka við um sektir. Ég er nú ekkert laganörd en það kemur fram í greinargerðinni, með leyfi forseta, að frumvarpinu er einungis ætlað að „hafa áhrif á þá sem standa að ólöglegum innflutningi, útflutningi, sölu, kaupum, skiptum, afhendingu, móttöku, framleiðslu og vörslu framangreindra lyfja“. Ég átta mig ekki alveg á vörslunni. Maður er náttúrlega með lyfin eða efnin á sér ef maður neytir þeirra sem þýðir að það er varsla. Það er tekið fram í greinargerðinni að það er hluti af þessu. Getur hæstv. heilbrigðisráðherra staðfest það hér og nú? Þetta er ekki spurning um ætlun heldur hvað lögin segja. Er alveg á tæru að það sé ekki möguleiki á að beita þá aðila sektum eða fangelsa þá sem einungis neyta þessara efna og eru með efnin á sér, eru teknir með neysluskammta á sér?