146. löggjafarþing — 59. fundur,  25. apr. 2017.

bann við tilteknum frammistöðubætandi efnum og lyfjum.

432. mál
[20:14]
Horfa

Halldóra Mogensen (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka svör hæstv. ráðherra og hlakka til að skoða þetta mál til hlítar innan nefndarinnar og er mjög vongóð um að við pössum upp á að neytendum verði ekki refsað. Sérstaklega er gott að vita af því að heilbrigðisráðherra er ekki hlynntur þeirri leið. Það liggur t.d. fyrir nýleg skýrsla heilbrigðisráðherra um mótun stefnu til að draga úr skaðlegum afleiðingum og hliðarverkunum vímuefnaneyslu, en þar kemur fram um skaðaminnkun, með leyfi forseta, að „líta ætti á vanda vímuefnaneytenda í íslensku samfélagi sem heilbrigðisvandamál fremur en viðfangsefni lögreglu og refsivörslukerfisins“. Tillaga hópsins sem vann að þessari skýrslu var m.a. að afnema fangelsisrefsingu fyrir vörslu á neysluskömmtum.

Þótt ekki sé hægt að flokka frammistöðubætandi efni sem vímuefni eru þessi efni notuð til að svala fíkn. Þá er spurning hvort fangelsisrefsing virki í raun sem hindrun. Sagan og gögnin segja að svo sé ekki. Mér finnst gott að heyra að hæstv. heilbrigðisráðherra sé sammála því. Þá er bara að passa upp á að lögin tryggi það.