sjúklingatrygging.
Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um sjúklingatryggingu, nr. 11/2000. Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar sem auka skýrleika tiltekinna ákvæða í lögunum auk þess sem gerðar eru ákveðnar breytingar sem nauðsynlegar eru taldar.
Sjúkratryggingar Íslands taka á móti umsóknum um bætur, meta umfang tjóns og ákveða fjárhæð bóta samkvæmt lögum um sjúklingatryggingu. Við framkvæmd laganna hefur komið í ljós að sum ákvæði þeirra eru ekki nógu skýr sem veldur vanda við túlkun laganna. Markmiðið er að bæta úr þessu með frumvarpinu. Sem dæmi má nefna að lagt er til að sérstaklega verði tekið fram það hlutverk Sjúkratrygginga Íslands að meta umfang tjóns sem verður vegna atburðar sem stofnunin hefur metið bótaskyldan samkvæmt lögunum. Í gildandi lögum er einungis orðað að hlutverk stofnunarinnar sé að taka afstöðu til bótaskyldu og ákveða fjárhæð bóta. Stofnunin metur einnig umfang tjóns.
Með frumvarpinu er lagt til ákvæði sem felur í sér að afgreiðslu máls hjá Sjúkratryggingum Íslands sé lokið áður en einstaklingar geti leitað til dómstóla. Samkvæmt upplýsingum frá stofnuninni hefur færst í aukana að málum sé stefnt til dómstóla á meðan málsmeðferð er ekki lokið hjá henni með tilheyrandi samfélagslegum kostnaði. Með ákvæðinu er stuðlað að samræmi í framkvæmd og auknu réttaröryggi með því að tryggja að stofnunin ljúki afgreiðslu mála sem henni hafa verið falin samkvæmt lögunum.
Í frumvarpinu eru upphæðir hámarks- og lágmarksbóta uppfærðar til samræmis við vísitölu neysluverðs. Ekki er um að ræða breytingu á bótafjárhæðunum.
Með frumvarpinu er lagt til ákvæði um að Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins og skólastofnanir á háskólastigi sem veita heilbrigðisþjónustu beri bótaábyrgð. Sem dæmi um skólastofnun á háskólastigi sem veitir sjúklingum heilbrigðisþjónustu er tannlæknadeild Háskóla Íslands. Markmiðið er að taka af allan vafa um að Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins og skólastofnanir á háskólastigi sem veita sjúklingum heilbrigðisþjónustu beri bótaábyrgð og tryggja þannig rétt sjúklinga sem verða fyrir tjóni í tengslum við rannsóknir eða sjúkdómsmeðferðir hjá þessum aðilum. Einnig er lagt til að Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins og ríkisreknar skólastofnanir á háskólastigi sem veita sjúklingum heilbrigðisþjónustu séu undanþegnar vátryggingarskyldu til samræmis við aðrar opinberar stofnanir.
Virðulegi forseti. Ég hef nú gert grein fyrir meginatriðum frumvarpsins og leyfi mér því að leggja til að frumvarpinu verði vísað til hv. velferðarnefndar og 2. umr.