146. löggjafarþing — 59. fundur,  25. apr. 2017.

stefna og framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks 2017--2021.

434. mál
[20:38]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir kynninguna á þessari þingsályktunartillögu um framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks. Þetta er mjög gott plagg. Síðan eigum við eftir að sjá hvort framkvæmdin nær að verða að þeim veruleika sem hér er lagt upp með. Ég tek undir með hv. þm. Halldóru Mogensen, ég hef líka áhyggjur af því að kostnaðaráætlun gangi ekki eftir í öllum þessum þáttum en við þurfum þá að taka á því þegar þar að kemur. Hér er t.d. talað um aðgengilegar upplýsingar, verkefni sem sveitarfélögin eiga að takast á við, táknmálstúlkun verði aðgengileg sem og punktaletur, textun og upplýsingar, bæði ritaðar og rafrænar. Þetta er auðvitað á ábyrgð ráðuneytisins en maður sér ekki fyrir sér að það geti alls staðar gengið stóráfallalaust nema fjármunir komi til með þessum verkefnum, miðað við a.m.k. það sem sveitarfélögin hafa sagt.

Ég ætla að drepa á nokkra liði í tillögunni. Þetta er náttúrlega heilmikið plagg. Fjölgun geðheilsuteyma finnst mér afar mikilvægt atriði og ég hef auðvitað séð árangur af slíku starfi, kannski ekki geðheilsuteyma en teyma fagfólks sem hafa komið saman og verið stuðningsaðili þeirra sem á þurfa að halda og tilheyra þeim flokki að vera fatlaður einstaklingur. Hér á að efla ráðgjöf geðsviðs Landspítala við þennan hóp og um allt land. Í ljósi þeirra upplýsinga sem komu fram á aðalfundi Landspítalans í gær þá hefur maður áhyggjur af því að þetta gæti orðið erfitt. Það eru lagðar til, ég man ekki hvað það var, 700 milljónir eða svo í BUGL, en ekkert sérstakt fé er markað í þetta, alla vega ekki það sem við höfum séð. Auðvitað á það eftir að koma betur í ljós þegar við sjáum þetta brotið niður. Varðandi það markmið að fatlað fólk hafi aðgang að sérhæfðri geðheilbrigðisþjónustu vil ég segja að miðað við stöðuna í dag þá hefur hinn almenni borgari ekki aðgengi að sérhæfðri heilbrigðisþjónustu og þess vegna spyr maður sig: Er hún eitthvað frekar til staðar og verður til staðar fyrir fatlað fólk? En áformin eru vissulega góð.

Mér finnst líka sérstaklega góður liður D.2, að auka skilning og þekkingu stjórnmálamanna á málefnum fatlaðs fólks. Hér er ábyrgðin reyndar falin Sambandi íslenskra sveitarfélaga, ég held að við þurfum líka að taka hana til okkar á þingi, ekki bara sambandið, en ég held að þetta sé mjög mikilvægt vegna þess að eitt af því sem maður hefur kynnst í sveitarstjórn er mismikill skilningur og virðing fyrir stöðu fatlaðs fólks. Það sama má í raun segja um lögregluna, ákæruvaldið og dómskerfið. Það var einmitt góður fundur í allsherjar- og menntamálanefnd í fyrra þar sem komu til okkar norskir aðilar sem hafa haft með þetta að gera og eru mjög framarlega í þessu. Ég hef trú á því að þetta gæti verið gert í þeim anda og er kannski að einhverju leyti hafið á Suðurlandi.

Síðan langar mig aðeins að koma inn á menntun. Úr þeim geira kem ég, sá um starfsbraut fyrir fatlað fólk. Í gær fengum við fréttir af því að það væri ekki hægt að halda úti diplómanámi í myndlist fyrir fólk með þroskahömlun. Hér er lagt upp með að fatlað fólk eigi að hafa sömu tækifæri og aðrir til menntunar og þá finnst mér þessi frétt einhvern veginn ekki lofa góðu. Síðan var braut í háskólanum sem tók á móti fötluðu fólki, var lengi vel tilraunaverkefni. Það þarf auðvitað að auka fjölbreytnina eins og gert er ráð fyrir að verði gert á þessu ári og því næsta, sýnist mér. Þar kemur líka fram að þetta sé innan ramma, væntanlega ramma velferðarráðuneytisins, þó að samstarfsaðilarnir séu háskólarnir og mennta- og menningarmálaráðuneytið. Ég geri ráð fyrir að þarna sé átt við velferðarráðuneytið.

Ég tek undir að það vantar auðvitað mikið upp á að fjölbreytileiki sé nægur í námsframboði fyrir fatlað fólk. Eflaust líka á starfsbrautum í framhaldsskólunum, þar hugsa ég að staðan sé mjög mismunandi. Ég naut þess að vera í skóla sem var nýr. Við vorum að byggja upp starfið, þess vegna hafði maður tækifæri til þess að gera margt og það var mikill sköpunarkraftur, það gafst tækifæri á að byggja upp sérbraut um leið og maður var að búa nemendurna undir og hvetja þau til þátttöku í skólanum án aðgreiningar í því sem þau voru fær um að gera.

Hér er líka talað um aukna samþættingu og betri undirbúning við flutning milli skólastiga. Það hefur verið rætt að það sé kannski helst á milli grunnskóla og framhaldsskóla. Hér er lagt til að það verði einhvers konar málstjórar settir í hverju umdæmi, ef ég hef lesið rétt, sem eiga í raun að sjá til þess að slíku samtali verði komið á. Þetta hefur verið viðhaft í minni heimabyggð frá því að menntaskólinn þar varð að veruleika og ekki spurning að þetta skiptir gríðarlega miklu máli upp á öryggi og líðan og annað slíkt. Það er einmitt talað um hérna að það verði ekki rof á þjónustu við 18 ára aldurinn. Nú eru flestir framhaldsskólar þriggja ára framhaldsskólar. Það er hins vegar enn þá gert ráð fyrir því að þessir nemendur geti verið í fjögur ár, kjósi þeir það, þannig að þeir eru þá alla jafna orðnir tvítugir við lok náms. Það þarf samt að passa upp á nokkur atriði, það þarf að passa upp á þjónustuna, en það þarf líka að passa upp á einkalífið, þ.e. þá eru nemendur orðnir fullorðnir einstaklingar og þá rofnar samtalið við foreldra. Þar þekki ég til að orðið hefur misbrestur á varðandi trúnað við nemandann. Það þarf að gæta að því.

Hér er talað um húsnæðisþörf. Við þekkjum öll húsnæðisvandann sem við tölum um mjög reglubundið hér og var sérstök umræða í gær um hann. Sveitarfélögum er ætlað að gera áætlanir um húsnæðisúrræði til fjögurra ára til þess að vinna á biðlistum. Ég velti því fyrir mér og væri áhugavert að heyra hvað ráðherranum fyndist um jafna stöðu, af því að í hinum dreifðu byggðum eins og við þekkjum þá getur það auðvitað verið snúið að sveitarfélögin hafi bolmagn til þess að gera þetta. Við erum að tala mikið um samvinnu á milli svæða, milli stórra þjónustusvæða, en svo vill fólk auðvitað búa á sínu heimasvæði.

Ég er að verða búin með tímann. Mér finnst vanta tímasetningu varðandi það að skilgreina hámarksbiðtíma eftir greiningu hjá Greiningar- og ráðgjafarstöðinni. Mælanlega markmiðið er að það liggi fyrir viðmið um hlutfall barna á biðlista eftir greiningu. Mér finnst vanta að segja í rauninni að markmiðið sé eitthvert X en ekki að það sé bara í lausu lofti.

Ég gæti talað örugglega í annan eins tíma um þetta. Hér segir að þjónusta við fötluð börn með sértækar þarfir verði veitt í nærumhverfi þeirra. Það eigum við að gera alveg nákvæmlega eins og með önnur börn, Barnahús er t.d. að láta byggja húsnæði til að geta sinnt börnum og fjölskyldum nær þeim og auðvitað á að vera þannig líka gagnvart fötluðu fólki.

Eitt í restina, það er atvinnuþátttaka. Það er í rauninni eitt af því sem ég (Forseti hringir.) þyrfti að koma í aðra ræðu um, því mér finnst vanta úrræði fyrir fólk sem vill stunda (Forseti hringir.) vinnu, er alveg fært til þess, en viðhorf vinnustaða er bara ekki gott.