146. löggjafarþing — 59. fundur,  25. apr. 2017.

jöfn meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna.

436. mál
[21:28]
Horfa

Pawel Bartoszek (V):

Frú forseti. Mig langar að byrja á að bæta við túlkun minni í ljósi þeirrar fyrirspurnar sem hér barst hvort umrætt ákvæði eigi við auglýsingar. Það er mín skoðun að grínisti sem er listamaður sem er ekki að auglýsa vöru heldur einfaldlega að draga hlutina sundur og saman í háði, eins og þeir gera gjarnan, falli undir þetta ákvæði. Hugsanlega er einhver ósammála mér en ég myndi ekki túlka ákvæðið með þeim hætti.

Ég kem hingað upp til að fagna þessu frumvarpi og raunar einnig því frumvarpi sem borið var fram áðan. Þau kallast á með augljósum hætti. Við í Viðreisn höfum lagt áherslu á að Ísland verði land sem sé opið öllum og vingjarnlegt gagnvart öllum sem hingað vilja koma. Ég held að báðir þessir lagabálkar séu góð leið í átt að því.

Hæstv. ráðherra nefndi MIPEX-mælikvarðann, sem ég og fleiri höfum stundum notað í þessum samanburði þar sem Kanada og Svíþjóð eru efst og Ísland ekkert allt of ofarlega. En eitt það helsta sem dregur Ísland niður í samanburðinum, sem byggir á ákveðnum spurningalistum um löggjöf, er einmitt kaflinn um bann við mismunun. Í þeim flokki er Kanada efst með 92 stig, Bandaríkin í öðru sæti með 90, síðan Búlgarar með 89, Portúgal, Bretland, Svíþjóð — ég ætla ekki að lesa upp allan listann vegna þess að ég er ekki viss um að mér endist tíminn þar til kemur að Íslandi í þessum samanburði. Ísland er einfaldlega í neðsta sæti á þessum lista með 5 stig af 100. Ástæðan fyrir svo herfilegu skori Íslands í þessum alþjóðlega samanburði er að dæmigerð spurning á þessum lista er einmitt: Tekur allsherjarlöggjöfin til banns við mismununar á grundvelli uppruna og kynþáttar á mismunun í skólakerfinu? Svo er ekki, við erum ekki einu sinni með slíka löggjöf. Ísland er eitt fárra ríkja á Vesturlöndum sem ekki er með neina heildstæða löggjöf um jafna meðferð óháð kynþætti eða uppruna, hvort sem er á hinum almenna vinnumarkaði eða í samfélaginu í heild sinni. Það stendur nú sem betur fer til bóta.

Ég vona innilega að þetta frumvarp nái fram að ganga. Það gengur auðvitað ekki óheyrilega langt. Maður gæti þó talið, eins og alltaf þegar fólk innleiðir ákveðnar réttarbætur og sér fyrir sér ýmsa hluti sem nú verða óheimilir, að samfélagið muni umturnast. En sé sá spurningalisti skoðaður sem ég miða við sýnist mér við haka við rétt innan við 50% af þeim atriðum sem spurt er um þar. Eins og bent var á tekur frumvarpið einungis til jafnrar meðferðar óháð kynþætti og þjóðernisuppruna. Mörg sambærileg frumvörp í öðrum löndum taka einnig á mismunun á grundvelli trúar eða lífsskoðana eða jafnvel beinlínis þjóðernis, ríkisfangs.

Ég held að þetta sé góð byrjun. Þó klukkan sé margt má kannski segja að þetta sé eins og ef Ísland væri eina landið í Vestur-Evrópu sem ekki hefði lög um jafna stöðu karla og kvenna en að við værum nú að leggja til að slík lög yrðu tekin upp. Þetta er því merkileg stund. Ég veit að unnið hefur verið að þessu frumvarpi í viðkomandi ráðuneyti í lengri tíma. Það er óþarfi að skreyta sig með stolnum fjöðrum í þeim efnum. En ég vil enn og aftur fagna því að þetta mál sé komið fram. Ég styð það heils hugar og vona að það nái fram að ganga á þessu þingi.