146. löggjafarþing — 59. fundur,  25. apr. 2017.

jöfn meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna.

436. mál
[21:35]
Horfa

Pawel Bartoszek (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Kolbeini Óttarssyni Proppé kærlega fyrirspurnina. Svar mitt við henni er eftirfarandi: Nú mun málið fara til allsherjar- og menntamálanefndar þar sem leitað verður eftir umsögnum. Mér finnst skipta heilmiklu máli hvernig þær umsagnir líta út, umsagnir frá mannréttindasamtökum sem hafa starfað hér á Íslandi og gert sig gildandi í umræðunni og í einhverjum tilfellum hjálpað til við að svara umræddum spurningalistum — ég veit til dæmis að Mannréttindaskrifstofa Íslands hefur svarað þeim um MIPEX-kvarðann. Þá verð ég að segja að ég mun líklegast verða pragmatískur í afstöðu minni á þann hátt að ég legg töluverða áherslu á að þessi lagabálkur verði til og verði hluti af íslenskri löggjöf; ég legg meiri vigt á það en að hann verði strax til í þeirri mynd sem myndi henda okkur upp einhvern lista sem að jafnaði er miðað við. Vissulega heyrir þingmaður hver afstaða mín í þeim efnum yrði og hvernig ég myndi líklegast vilja sjá þessi mál sjálfur. Ég sé alls ekkert því til fyrirstöðu að þessi lagabálkur tæki einnig til mismununar á grundvelli trúar og lífsskoðana en fyrsta hugboð mitt er að leggja áherslu á að málið nái fram að ganga. Ef það er búið að ganga í gegnum ákveðna rýnivinnu hingað til og ákveðið samráðsferli í ráðuneytinu finnst mér ýmislegt hníga að því að gott sé að ná því fram í þessari mynd og síðan leita eftir útvíkkun, en ég mun að sjálfsögðu hlusta eftir umsögnum þeirra aðila sem ég tek mark á í þessum efnum.