146. löggjafarþing — 59. fundur,  25. apr. 2017.

jöfn meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna.

436. mál
[21:39]
Horfa

Pawel Bartoszek (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega andsvar hans og áréttingu. Það er gott að vita afstöðu hans í þessum efnum, bæði fyrir vinnuna nú og fyrir framtíðina. Það er þá eitthvað sem maður getur notað. Það eina sem ég segi í þessum efnum er þetta: Þetta frumvarp byggir að einhverju leyti á tilskipun sem er að verða 17 ára gömul. Ef ég trúi því að meiri líkur séu á að frumvarpið nái fram að ganga óbreytt vil ég frekar að það gerist en að við bíðum í 17 ár í viðbót eftir því að fá einhvern lagabálk. Því auðvitað bætir ný mismununarbreyta við nýjum spurningum, nýjum áhyggjum. Einhverjir munu hugsanlega telja sig þurfa að skila annarri umsögn milli umræðna o.s.frv. Það eru spurningarmerkin sem ég set. En ég held að ég og hv. þingmaður séum ekki ósammála um hvernig við myndum vilja sjá þetta. Það er bara spurning um hvert réttasta fyrsta skrefið sé.