146. löggjafarþing — 59. fundur,  25. apr. 2017.

jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla.

437. mál
[21:56]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Þorsteinn Víglundsson) (V) (andsvar):

Frú forseti. Nú ætla ég ekkert að fullyrða um endanlega afstöðu þeirra þingmanna sem reifað hafa efasemdir sínar eins og ég nefndi fyrr, en eins og ég sagði þá treysti ég því að um þetta mál geti skapast víðtæk samstaða. Ég tel það ekkert veikleikamerki á stjórnarsamstarfi þó svo að einstakir þingmenn hafi mismikla trú á þeirri leið sem hér er valin.

Hvað varðar þá aðferðafræði sem hér er valin þá er það alveg rétt sem hv. þingmaður nefnir að oft er samið um slík mál á vinnumarkaði. Hér er í raun og veru með vissum hætti röð atburða snúið við, þ.e. löggjafinn tekur frumkvæði í málinu en gefur heimildarákvæði til kjarasamninga á grundvelli laganna. Yfirleitt er því á hinn veginn snúið. En fyrir því eru ótal dæmi. Ég nefni sem dæmi lög um kynjakvóta í stjórnum hlutafélaga sem hafa sýnt sig að hafa virkað með ágætum og hefðu aldrei komið til öðruvísi en einmitt með inngripi löggjafans. Ég tel að sú sé einnig raunin hér og þó svo að þetta mál eigi rót sína að finna á vinnumarkaði þá hefði þetta skref (Forseti hringir.)aldrei verið stigið nema með því að löggjafinn hefði lýst þessum vilja.