146. löggjafarþing — 59. fundur,  25. apr. 2017.

jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla.

437. mál
[22:04]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Þorsteinn Víglundsson) (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni þetta andsvar. Það er alveg rétt að að vissu leyti er bagalegt að ekki sé um opinbert gagn að ræða. Sjálfsagt er að kanna hvort með einhverjum hætti megi bæta þar úr, en þessi aðferðafræði var valin á sínum tíma af því að hér er um alþjóðlega aðferðafræði að ræða. Þetta þýðir að við höfum lagt fram staðal sem hægt er að nýta í öðrum löndum á sama grunni. Staðallinn hefur fyrst og fremst að geyma hina tæknilegu lýsingu á því hvaða kröfur jafnlaunakerfi skuli uppfylla til þess að fyrirtæki geti þróað það og unnið eftir því.

Ég held að þetta eigi ekki að vera málinu til mikilla trafala. Þótt vissulega væri heppilegra að staðallinn væri opinn er þetta auðvitað fyrirkomulag slíkra staðla. Ég held að það sé meira virði í því samhengi að þennan staðal megi auðveldlega yfirfæra á önnur lönd. Þannig getum við verið á ákveðinn hátt leiðarljós annarra landa.