146. löggjafarþing — 59. fundur,  25. apr. 2017.

jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla.

437. mál
[22:11]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Þorsteinn Víglundsson) (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka enn og aftur andsvarið. Ég hef ekki nákvæma tölu á því hversu mörg fyrirtæki hafa unnið að innleiðingu á eða innleitt aðferðafræði staðalsins. Þau telja einhverja tugi sem hafa unnið í anda staðalsins að jafnlaunaúttektum. (Gripið fram í.) Unnið hefur verið eftir ýmsum stöðlum, VR-vottun, PWC-úttekt og annað sem er keimlík aðferðafræði en þó ekki alveg fullgild. Ég hygg hins vegar að það séu sennilega einhvers staðar á bilinu 10 til 15 stofnanir eða fyrirtæki sem eru langt komin með innleiðingu á grundvelli staðals svo að ég þekki til.

Hvað varðar reynsluna af rafrænum skilríkjum sem vísað er til þá er það svo að þetta krefst faglegrar vottunar. Auðvitað (Forseti hringir.) geta fjölmargir aðilar gert og sinnt þessu. Í dag eru þeir sennilega tveir sem eru líklegir til þess, en ég vænti þess, miðað við þann fjölda fyrirtækja og stofnana sem hér er undir, að þeir verði umtalsvert fleiri.