146. löggjafarþing — 59. fundur,  25. apr. 2017.

jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla.

437. mál
[23:34]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurningarnar. Það er auðvitað margt á þessu þingi sem hefur verið óvenjulegt, ekki það að ég hafi mikla reynslu hér, en ef það er óvenjulegt þá fyndist mér til mikilla bóta að hér væru frumvörp afgreidd þannig að þau nytu stuðnings frá bæði stjórn og stjórnarandstöðu. Hv. þingmaður spurði mig hvort frumvarpið hefði verið afgreitt með fyrirvara út úr þingflokki Sjálfstæðisflokksins, svo er ekki, enda er þetta mál í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar.

Það er alveg ljóst að ákveðnir þingmenn hafa boðað ákveðinn fyrirvara, hafa haft efasemdir um málið. Ég er reyndar þannig þenkjandi að mér finnst að þingmenn eigi að fara eingöngu eftir sinni eigin sannfæringu. Ef það eru einhverjir þingmenn eftir þessa umræðu og þinglega meðferð sem eru ekki sannfærðir um gildi þessa máls þá tel ég rétt að þeir greiði atkvæði eftir sinni sannfæringu. Ég fagna því bara að hér sé almennt jákvæð umræða um þetta mál og ljóst að málið nýtur stuðnings langt út fyrir stjórnina.