146. löggjafarþing — 59. fundur,  25. apr. 2017.

jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla.

437. mál
[23:37]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka aftur andsvarið. Spurt er hvort ég deili þeim áhyggjum að hér sé um íþyngjandi löggjöf að ræða. Að einhverju leyti er hún íþyngjandi, fyrirtæki þurfa að innleiða einhverja ferla og það mun kosta þau, en ég held engu að síður að það sem fyrirtækin fái út úr því sé meira og við sem samfélag líka. Ég sé í greinargerðinni að þetta hefur verið unnið í víðu og breiðu samráði. Ég treysti líka nefndinni til þess að taka þessa umræðu þar. Það munu væntanlega berast umsagnir frá þessum aðilum. Við munum taka það inn í þinglega meðferð hver afstaða fyrirtækja almennt er til þessa máls. Almennt tel ég þó að þessi íþyngjandi þáttur ætti ekki að trufla framgöngu frumvarpsins.

Spurt er hvort frumvarpið sé of þröngt og nái ekki þeim meginmarkmiðum að útrýma algjörlega launamun kynjanna. Því er til að svara að árið 1961 þegar hér var sett löggjöf þá hélt fólk að þetta myndi verða klappað og klárt eftir nokkur ár. Svo varð ekki. Hér er verið að stíga næstu skref. Ég vona innilega að við getum sagt eftir nokkur ár: Já, okkur hefur tekist að útrýma kynbundnum launamun. Hvort það verður raunin verður tíminn einn að leiða í ljós.

Næstu skref. Ég held að við þurfum að fylgja þessu frumvarpi vel úr hlaði. Ég sé að við höfum auðvitað svolítinn tíma, það er svolítill aðlögunartími fyrir fyrirtækin og auðvitað mun svona vottun taka töluverðan tíma. En ég held þetta sé gott skref.

Hvað lýtur að lúðrablæstri og víkingaklappi í New York þá var ég ekki á þeirri ráðstefnu þannig að ég veit svo sem ekki alveg hvernig málið var kynnt þar, en ég óttast það ekkert, við eigum að vera stolt af þeirri stöðu sem við erum í í dag hvað jafnrétti kynjanna varðar. Við megum (Forseti hringir.)alveg tala það upp. Þetta gæti orðið til þess að styrkja enn frekar þá stöðu. Það er bara jákvætt.