146. löggjafarþing — 60. fundur,  26. apr. 2017.

Klíníkin og áherslumál Bjartrar framtíðar.

[15:03]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Óttarr Proppé) (Bf):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrirspurnirnar. Það er nokkuð auðvelt að svara því: Nei, það hefur ekki orðið nein breyting á þeirri ákvörðun minni, því sem ég sagði hér í ræðustól Alþingis fyrir einhverjum vikum, að ekki stæði til að fela Sjúkratryggingum Íslands að gera sérstakan samning við Klíníkina. Hv. þingmaður gerir að umræðuefni ágreining eða mismunandi lagatúlkun ráðuneytisins annars vegar og landlæknis hins vegar. Það er skýrt gagnvart ráðuneytinu að ráðuneytið starfar samkvæmt lögum. Það er hlutverk mitt sem ráðherra og heilbrigðisráðuneytisins að starfa eftir lögum og eftir bestu getu og eftir túlkun okkar á lögum. Sérfræðingar ráðuneytisins túlka það sem svo að eftir breytingu á lögum um heilbrigðisþjónustu árið 2007, þar sem tekin var út af hv. Alþingi krafa um að ráðherra eða ráðuneyti veitti sérstakt starfsleyfi fyrir sjúkrastofnunum, þá sé ekki gert ráð fyrir því að veitt sé sérstakt starfsleyfi.

Mér þykir það bagalegt. Það er ekki í takt við það hvernig ég vil sjá íslenska heilbrigðisþjónustu þróast eða halda áfram. Ég er því að undirbúa það að setja af stað vinnu í ráðuneytinu til að skoða hvort við þurfum að beita okkur fyrir því að lögum verði breytt eða þau skýrð þegar að þessu kemur. Ég ítreka að það er hlutverk ráðuneytis míns að fara að lögum. Við getum ekki starfað öðruvísi. Lagatúlkun ráðuneytisins er ekki pólitísk heldur er hún túlkun á lögum eins og við sjáum best að þau standi.

Ég verð að koma að seinni hluta spurningarinnar í seinna svari.