146. löggjafarþing — 60. fundur,  26. apr. 2017.

Klíníkin og áherslumál Bjartrar framtíðar.

[15:06]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Óttarr Proppé) (Bf):

Virðulegur forseti. Ég og hv. þingmaður erum sammála um að taka eigi á slíku í lögum. Það er Alþingi sem setur lög en ekki ráðherra. Það er þess vegna sem ég er að setja af stað vinnu til að skoða hvort tilefni sé til að mælast til þess að lögum verði breytt. Hv. þingmaður var hér á Alþingi árið 2007 þegar þessi breyting var gerð en ekki sá sem hér stendur. Ég er ekki alveg viss um hver hugsunin var þegar sú breyting var gerð en mér er sagt að það hafi alla vega verið ljóst að fram að því hafi þessu ákvæði um að veita sérstakt starfsleyfi aldrei verið beitt. En við vitum að þegar kemur að heilbrigðisþjónustu og umhverfi hennar er hún að breytast hröðum skrefum og er full ástæða til að endurskoða svona hluti mjög reglulega. Ég er sammála hv. þingmanni um það.

Varðandi seinni spurninguna, hvort Björt framtíð ætli að styðja við og standa við fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar: Björt framtíð er hluti af þessari ríkisstjórn. Við styðjum aðgerðir þessarar ríkisstjórnar. (Gripið fram í.) (Forseti hringir.) Við erum þátttakendur í ríkisstjórn til að taka ábyrgð í íslensku samfélagi. Ég tel þvert á móti að veruleg aukning til alla vega málaflokks míns, heilbrigðismála, og uppbygging á nýjum Landspítala, ég veit ekki hversu mörgum áratugum á eftir fyrstu hugmyndum, séu mjög mikilvægt innlegg í málaflokkinn.