146. löggjafarþing — 60. fundur,  26. apr. 2017.

frumvarp um samninga um heilbrigðisþjónustu.

[15:13]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Frú forseti. Nú liggur fyrir þinginu fjármálaáætlun sem að óbreyttu neyðir opinberu sjúkrahúsin til að draga saman seglin. Á sama tíma er óljóst með hvaða hætti heilbrigðisþjónusta í landinu er að þróast. Þannig segir á vef landlæknis, með leyfi forseta:

„Túlkun ráðuneytisins á heilbrigðislögunum gerir það hins vegar að verkum að einkarekstur og einkavæðing á sviði sérhæfðrar heilbrigðisþjónustu og sjúkrahúsþjónustu getur haldið áfram að vaxa hér á landi í skjóli samnings Sjúkratrygginga Íslands og Læknafélags Reykjavíkur og sjúklinga sem greiða fyrir aðgerðir úr eigin vasa.“

Og síðar:

„Meðan svo er, er vandséð hvernig heilbrigðisyfirvöld geta haft stjórn á því hvert opinbert fjármagn rennur til heilbrigðismála og hvaða rekstrarform verða ríkjandi í íslensku heilbrigðiskerfi.“

Við getum með öðrum orðum átt von á því, gegn vilja almennings, að hér þróist tvöfalt kerfi. Annars vegar þar sem allur þorri almennings notar hið vanfjármagnaða opinbera kerfi og svo hitt, einkarekið kerfi sem að megninu til verður greitt af almannafé en fólk getur svo ef það vill og á peninga greitt aukalega og sótt sér þjónustu.

Það var í sjálfu sér ánægjulegt að heyra ráðherra segja hér áðan að hann vildi koma skikki á galskapinn með nýjum lögum. Hv. þm. Oddný Harðardóttir hefur lagt fram frumvarp sem tryggir aðkomu Alþingis að ákvörðunum um frekari einkarekstur og einkavæðingu; með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um sjúkratryggingar er varða samninga um heilbrigðisþjónustu. Þar er gert ráð fyrir að ályktun Alþingis liggi til grundvallar þeim samningum sem hæstv. heilbrigðisráðherra gerir vegna læknaþjónustu í einkarekstri. Tilgangur frumvarpsins er augljós: Að ráðherra hafi skýrt umboð lýðræðislega kjörinna fulltrúa þjóðarinnar hverju sinni áður en hann gengur til samnings við einkaaðila um rekstur mikilvægra grunnstoða heilbrigðiskerfisins. Í dag getur hann ráðið þessu dálítið sjálfur.

Ég spyr því hæstv. heilbrigðisráðherra hvort hann styðji markmið frumvarpsins og muni leggja því lið.