146. löggjafarþing — 60. fundur,  26. apr. 2017.

frumvarp um samninga um heilbrigðisþjónustu.

[15:17]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Frú forseti. Ég veit svo sem ekki hvort hæstv. heilbrigðisráðherra beitti sér sérstaklega fyrir því á síðasta þingi að þetta mál í Mosfellsbæ yrði sérstaklega tekið á dagskrá, en það má vel vera. En því miður er það samt sem áður svo að fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar gefur bara fullt tilefni til að óttast hið versta. Á ársfundi Landspítalans var t.d. dregin upp frekar dökk mynd af þróun heilbrigðiskerfisins. Forstjóri lýsti þar baráttu sinni við fjárveitingavaldið og segir að spítalinn sé með helmingi lægra fjárframlag en sambærileg stofnun á Norðurlöndum. Hann segir, með leyfi forseta:

„Ég vil vera alveg heiðarlegur við ykkur og segi því að ég eiginlega skil bara ekkert í þessu. Hvernig má það vera að vel meinandi stjórnvöld neiti að horfa á blákaldar staðreyndir sem við súmmerum upp með gagnaöflun og upplýsingagjöf. Hvað erum við að gera vitlaust? Hvernig má þetta vera, þegar það gengur svona vel á Íslandi?“

Ég hlýt að spyrja hæstv. ráðherra hvort ekki sé rétt að skrúfa fyrir þennan krana sem einkarekin (Forseti hringir.) læknastarfsemi virðist geta tappað endalaust af. Mun þá hæstv. ráðherra beita sér fyrir því að þingið fái að stjórna krananum?