146. löggjafarþing — 60. fundur,  26. apr. 2017.

frumvarp um samninga um heilbrigðisþjónustu.

[15:19]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Óttarr Proppé) (Bf):

Virðulegur forseti. Það má kannski segja að þingið stjórni tappanum. Það er þingið sem setur fjárlög og þingið sem ákveður fjárveitingar (Gripið fram í: Meiri hluti þingsins ...) — meiri hluti þingsins, og Alþingi tekur þessa ákvörðun. (Gripið fram í: Ráðherrar ráða.) Ráðherra setur ekki fjárlög. Það er alveg skýrt. Hins vegar setjum við stefnu og vinnum úr fjárlögum og eftir þeim. Ég er sammála þeim sem hafa talað um það í umræðunni að síðustu árin og áratugina hafi verið ákveðið stjórnleysi í skipulagi íslensks heilbrigðiskerfis. Þetta kemur ekki bara fram í misræmi í vexti einkarekinnar þjónustu hjá sérfræðingum versus heilsugæsluna eða þróun hjá Landspítalanum, sérstaklega eftir hrun, miðað við aðra spítala annars staðar. Þetta kemur líka fram í því hvar við byggjum upp þjónustu og hvert einstaklingar leita sér þjónustu. (Forseti hringir.) Einn stór vandi í kerfinu er að fólk leitar sér þjónustu á röngum stað og oft dýrari þjónustu. Mér er full alvara við að koma betra skikki á þessi mál.