146. löggjafarþing — 60. fundur,  26. apr. 2017.

nám í myndlist fyrir fólk með þroskahömlun.

[15:20]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég beini fyrirspurn minni til hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra vegna þeirra tíðinda að útlit sé fyrir að ekki verði lengur hægt að bjóða fólki með þroskahömlun upp á diplómanám í myndlist því að ekki hafi fengist fjármagn til að halda námsbrautinni áfram. Fram kom í fréttum á dögunum að mikill niðurskurður hafi verið á þessu sviði og skólastjóri Myndlistaskólans í Reykjavík, sem haft hefur umsjón með náminu, segir að ráðuneytinu hafi verið sent bréf í febrúar en að niðurstaða liggi ekki fyrir í málinu.

Hæstv. forseti. Hér er um fámennan hóp að ræða, en ég hygg að þetta nám skipti hann miklu máli og auki lífsgæði hans umtalsvert. Ekki verður annað séð af fréttum af náminu en að aðsókn hafi verið mikil og að færri hafi komist að en vildu. Þá hefur komið fram að það er mat stjórnar Fjölmenntar að með diplómanámi fyrir fólk með þroskahömlun hafi verið brotið blað í menntun þessa hóps og að með því sé raungerð sú stefna að allir skuli eiga kost á að njóta menntunar og skóla án aðgreiningar á öllum skólastigum eins og kveðið er á um í alþjóðlegum mannréttindasamningum.

Mig langar af því tilefni að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann hyggist beita sér fyrir því með einhverjum hætti að fjármagn verði tryggt til þessarar starfsemi.